25. maí 2010

Flataskóli sigraði

Flataskóli fór með sigur af hólmi í keppninni Schoolovision 2010 sem er eins konar skólaútgáfa af Eurovision. Flataskóli er fulltrúi Íslands í keppninni en alls tóku 34 lönd þátt í þetta sinn.
  • Séð yfir Garðabæ

Flataskóli fór með sigur af hólmi í keppninni Schoolovision 2010 sem er eins konar skólaútgáfa af Eurovision. Flataskóli er fulltrúi  Íslands í keppninni en alls tóku 34 lönd þátt í þetta sinn.

Schoolovisionkeppnin fer fram rafrænt á netinu. Í ár tóku 34 skólar þátt í keppninni frá jafnmörgum löndum í Evrópu. Allir þessir skólar vinna tónlistarmyndbönd með  nemendum sínum sem eru sett á sameiginlega bloggsíðu keppninnar. Síðan skoða börnin í þátttökuskólunum 34 myndböndin og gefa þeim stig, en mega að sjálfsögðu ekki gefa sínu landi stig.

Stigagjöfin fór fram þriðjudaginn 25. maí kl. 8-9 í beinni útsendingu á netinu. Þá hittust löndin 34 á raf-fundi (allir tengdir í beinni) og hvert land/skóli tilkynnti hvaða land hefði fengið 1, 2, 3 og upp í 12 stig – alveg eins og í alvöru Eurovision. Flataskóli endaði með 256 stig en næst á eftir honum kom fulltrúi Tékklands með 236 stig.

Átta stúlkur úr 5. bekk voru fulltrúar Flataskóla (Íslands) í ár og sungu Abbalagið Dancing Queen. Þær voru valdar í undankeppni, svokallaðri Flatóvision sem haldin var í skólanum í mars. Myndbandið við lagið var unnið af húsverði skólans og var meðal annars tekið upp í vettvangsferð nemenda í 5. bekk út í Viðey þar sem þeir skoðuðu friðarsúluna.

Þetta er annað árið í röð sem þessi keppni fer fram og lenti framlag Flataskóla í fjórða sæti í fyrra en nú hreppti skólinn fyrsta sætið. Verkefnið hefur fengið fjölda viðurkenninga í Evrópu. 

Framlag Flataskóla í keppninni í ár er á youtube-vefnum á slóðinni: http://www.youtube.com/watch?v=ZoanSREEqko

Nánari upplýsingar um verkefnið á vef Flataskóla.

Bloggsíðan með öllum lögunum frá löndunum 34, þar sem úrslitin eru tilkynnt.