28. apr. 2010

Atvinnuleitendur virkjaðir

Bæjarstjórar Garðabæjar og Hafnarfjarðar og fulltrúar Rauða kross deildanna í sveitarfélögunum tveimur skrifuðu í dag undir samning um rekstur Deiglunnar.
  • Séð yfir Garðabæ

Bæjarstjórar Garðabæjar og Hafnarfjarðar og fulltrúar Rauða kross deildanna í sveitarfélögunum tveimur skrifuðu í dag undir samning um rekstur Deiglunnar. Markmiðið með rekstrinum er að skapa vettvang fyrir atvinnuleitendur í Garðabæ og Hafnarfirði  til sjálfseflingar og virkni í atvinnuleit.

Í Deiglunni verður boðið upp á námskeið og afþreyingu sem miðast að þörfum atvinnuleitenda. Ætlunin er að skapa tækifæri til virkrar þátttöku í fjölbreyttum verkefnum sem hafa þau markmið að byggja fólk upp og virkja það í atvinnuleit. Einnig er horft til þess að að skapa vettvang í Deiglunni fyrir atvinnuleitendur til að miðla af reynslu sinni til annarra í sömu stöðu.

Þegar hefur verið gengið frá ráðningu starfsmanns í hálft starf út þetta ár sem mun halda utan um starfsemi Deiglunnar. Sú sem varð fyrir valinu heitir Guðrún Ólafsdóttir og er með Bsc í viðskiptafræði auk þess að vera menntuð sem kjólameistari frá Iðnskólanum.

Miðstöð Deiglunnar verður í húsnæði Hafnarfjarðardeildar Rauða krossins, Strandgötu 24 í Hafnarfirði en hluti dagskrárinnar mun fara fram í húsnæði Garðabæjardeildarinnar við Hrísmóa í Garðabæ. Öll dagskráin er opin atvinnuleitendum úr báðum sveitarfélögunum.

 

Þess má geta að sveitarfélögin Garðabær, Hafnarfjörður og Álftanes hafa frá hausti 2009 rekið saman frumkvöðlasetrið Kveikjuna þar sem á þriðja tug einstaklinga vinnur að þróun nýrra viðskiptahugmynda undir handleiðslu sérfræðinga frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.


Dagskrá Deiglunnar verður birt á vefjum Rauða kross deildanna:

 

Rauði kross Íslands - Garðabæjardeild

Rauði kross Íslands - Hafnarfjarðardeild

 

Á myndinni eru frá vinstri: Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, Karen H. Theódórsdóttir, frá  Garðabæjardeild Rauða kross Íslands, Guðrún Ólafsdóttir, starfsmaður Deiglunnar, Áshildur Linnet frá Hafnarfjarðardeild Rauða krossins og Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði.