5. feb. 2010

Garðabær í þriðja sæti

Garðabær er í þriðja sæti í úttekt Vísbendingar á afkomu 38 stærstu sveitarfélaga landsins á árinu 2008 en úttektin var birt í blaðinu í janúar. Snæfellsbær er á toppnum að þessu sinni en Hornafjörður og Garðabær fylgja fast á eftir.
  • Séð yfir Garðabæ

Garðabær er í þriðja sæti í úttekt Vísbendingar á afkomu 38 stærstu sveitarfélaga landsins á árinu 2008 en úttektin var birt í blaðinu í janúar. Snæfellsbær er á toppnum að þessu sinni en Hornafjörður og Garðabær fylgja fast á eftir.

Garðabær og Seltjarnarnes skera sig úr

Í töflu sem fylgir greininni er einkunnagjöf síðustu þriggja ára birt. Þar segir „Einstaka óvenjuleg útgjöld eða tímabundin staða getur ruglað einkunnagjöfina einstök ár, en ólíklegt er að það standi lengi. Því er að þessu sinni litið á einkunnir undanfarin þrjú ár. Þá skera tvö sveitarfélög sig úr, jöfn í efsta sæti: Seltjarnarnes og Garðabær.“ Í greininni er jafnframt spurt hvað það sé sem geri þessi bæjarfélög góð og tiltekið að útsvarsprósentan sé lægri þar en annars staðar og að skuldir sem hlutfall af tekjum séu innan við 100% í báðum þessu sveitarfélögum.

Lægri einkunnir en áður


Í grein Vísbendingar segir m.a. að staða sveitarfélaga á Íslandi hafi verið verri í árslok 2008 en nokkru sinni áður. Í einkunnagjöf Vísbendingar fyrir árið 2008 eru aðeins fimm sveitarfélög með hærri einkunn en fimm sem er nokkur breyting frá fyrri úttektum. Þau eru Snæfellsbær, sem er útnefnt draumasveitarfélagið í ár, Hornafjörður, Garðabær, Seltjarnarnes, Dalvíkurbyggð og Húnaþing vestra.

Sjá frétt á vef útgáfufyrirtækisins Heims sem gefur m.a. út Vísbendingu.