7. jan. 2010

Heiðursborgari Garðabæjar

Ólafur G. Einarsson er heiðursborgari Garðabæjar. Á hátíðarfundi bæjarstjórnar Garðabæjar sem haldinn var í gær, 7. janúar 2010, var einróma samþykkt að útnefna Ólaf G. Einarsson heiðursborgara Garðabæjar.
  • Séð yfir Garðabæ


Ólafur G. Einarsson er heiðursborgari Garðabæjar. Á hátíðarfundi bæjarstjórnar sem haldinn var í gær, 7. janúar, var einróma samþykkt að gera Ólaf að heiðursborgara Garðabæjar. Ólafur er annar heiðursborgari bæjarins en séra Bragi Friðriksson hlaut þá nafnbót fyrstur manna árið 2001.

 

Erling Ásgeirsson, formaður bæjarráðs bar á fundinum fram svohljóðandi tillögu um að Ólafur yrði heiðursborgari Garðabæjar, fyrir hönd allra bæjarfulltrúa.

 

"Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkir að gera Ólaf G. Einarsson að heiðursborgara Garðabæjar. Með því vill bæjarstjórn sýna Ólafi þakklæti fyrir störf hans í þágu bæjarins og bæjarbúa og undirstrika að verk hans í Garðabæ verða í minnum höfð.“ 

 

Í greinargerð sem fylgdi tillögunni kemur fram að á þessu ári eru 50 ár síðan Ólafur G. Einarsson var ráðinn sveitastjóri í Garðahreppi. Þar segir jafnframt: "Ólafur hafði mótandi áhrif á uppbyggingu bæjarsamfélagsins í Garðabæ og var frumkvöðull á mörgum sviðum. Hugmyndir Ólafs á sviði skipulagsmála voru að mörgu leyti verið ólíkar því sem þá gerðist í bæjum á Íslandi og einkenndust m.a. af áherslu á lágreista byggð og stórar lóðir. Með hugmyndum Ólafs var lagður grunnur að þeirri skipulagsstefnu sem síðan hefur í meginatriðum ráðið ríkjum í Garðahreppi og síðar Garðabæ. Sú stefna hefur frá upphafi gert Garðabæ að eftirsóknarverðum stað til að búa á." 

 

Ólafur fæddist á Siglufirði 7. júlí 1932. Hann lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands vorið 1960. Þá um sumarið hóf hann störf sem sveitarstjóri í Garðahreppi og gegndi því til ársins 1972. Hann var kjörinn í hreppsnefnd Garðahrepps árið 1966 og átti sæti í nefndinni og síðar í bæjarstjórn til ársins 1978. Hann var oddviti hreppsnefndar á árunum 1972–1975 og forseti bæjarstjórnar 1976–1978. Ólafur var kjörinn á Alþingi árið 1971 og átti þar sæti til ársins 1999 er hann gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Hann var menntamálaráðherra á árunum 1991–1995 og forseti Alþingis 1995–1999.



Ólafur G. Einarsson hefur verið búsettur í Garðabæ frá árinu 1961. Kona hans er Ragna Bjarnadóttir og eiga þau eina dóttur.

 

Páll Hilmarsson, forseti bæjarstjórnar gerði frekari grein fyrir starfsferli Ólafs á fundinum.

Ræða Páls.

Fundargerð bæjarstjórnar

 

 

Frá hátíðarfundi bæjarstjórnar 7. jan. 2010

Tillagan um að gera Ólaf G. Einarsson að heiðursborgara Garðabæjar var samþykkt með atkvæðum allra bæjarfulltrúa.
Frá vinstri: Erling Ásgeirsson, Stefán Snær Konráðsson, Ragnhildur Inga Guðbjartsdóttir, Sigrún Aspelund, Hjördís Eva Þórðardóttir, Steinþór Einarsson, Páll Hilmarsson og Gunnar Einarsson bæjarstjóri.

 

Frá hátiðarfundi bæjarstjórnar 7. jan. 2010

Til fundarins var boðið öllum þeim sem hafa setið í bæjarstjórn Garðabæjar og stilltu þeir sér upp til myndatöku.