18. des. 2009

Samþykkt samhljóða

Fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árið 2010 var samþykkt samhljóða á fundi bæjarstjórnar í gær, fimmtudaginn 17. desember.
  • Séð yfir Garðabæ

Fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árið 2010 var samþykkt samhljóða á fundi bæjarstjórnar í gær, fimmtudaginn 17. desember. Gert er ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu að fjárhæð 67 mkr. Í áætluninni er lögð sérstök áhersla á að standa vörð um skóla- og æskulýðsstarf, sem er í samræmi við þann vilja sem fram kom á íbúafundi sem haldinn var í byrjun nóvember.

 

Fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árið 2010 var samþykkt samhljóða í bæjarstjórn í gær en afar fátítt er að fjárhagsáætlun sé samþykkt með atkvæðum allra bæjarfulltrúa. Niðurstöður áætlunarinnar bera vott um traustan fjárhag Garðabæjar en gert er ráð fyrir 67 milljóna króna tekjuafgangi. Veltufé frá rekstri er 724 milljónir króna eða 13,6% af heildartekjum. Útsvar verður áfram lágt í Garðabæ, 12,46% og álagningarhlutfall fasteignaskatts verður einnig óbreytt, 0,22% af íbúðarhúsnæði. Almennt hækka gjaldskrár ekki. Áætlunin gerir ráð fyrir að skuldir verði greiddar niður og framkvæmdum fyrir allt að 453 milljónum króna án þess að ný lán verði tekin. Meðal framkvæmda má nefna að gert er ráð fyrir að hafnar verði framkvæmdir við nýtt hjúkrunarheimili á Sjálandi.


Fyrirséðum samdrætti í tekjum verður mætt með sparnaði og hagræðingu í rekstri stofnana. Sérstök fjárveiting er veitt til að styrkja barna- og unglingastarf hjá íþrótta- og æskulýðsfélögum í bænum og einnig er veitt sérstök fjárveiting til að styðja við sveigjanlegt skólastarf.

Lagt er til grundvallar að tekjur lækki um 7-8% og að útsvarstekjur bæjarins verði 3,589 mkr. Almennt er gert ráð fyrir að haldið verði áfram með þær aðhaldsaðgerðir sem gripið var til á árinu 2009 en að ekki verði þörf á sérstökum aðgerðum þar til viðbótar. Meðal þeirra aðgerða var lækkun launa stjórnenda sem verða óbreytt út árið 2010.

Skuldastaða Garðabæjar er góð og bærinn er með nánast allar skuldir í ísl. kr. Langtímaskuldir án lífeyrisskuldbindinga nema um 2.100 mkr.

Undirbúningur að fjárhagsáætlun að þessu sinni var óhefðbundinn að því leyti að í fyrsta skipti var leitað til íbúa um ábendingar. Íbúaþing var haldið með þátttöku tæplega 100 Garðbæinga sem lögðu fram ýmsar gagnlegar ábendingar og áherslur. Sömuleiðis gafst íbúum kostur á að koma með hugleiðingar á rafrænu formi á heimasíðu Garðabæjar.

 

Fjárhagsáætlun Garðabæjar 2010.

Greinargerð með fjárhagsáætlun 2010.