13. nóv. 2009

Heimsókn menntamálaráðherra

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra heimsótti Sjálandsskóla í vikunni og opnaði um leið nýjan vef um loftslagsbreytingar á jörðinni. Oddný og Styrkár nemendur í 9. bekk tóku á móti ráðherra og gengu með hana um skólann að unglingadeildinni
  • Séð yfir Garðabæ

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra heimsótti Sjálandsskóla í vikunni og opnaði um leið nýjan vef um loftslagsbreytingar á jörðinni.  Oddný og Styrkár nemendur í 9. bekk tóku á móti ráðherra og gengu með hana um skólann að unglingadeildinni þar sem nemendur í 8.-9. bekk tóku á móti gestunum. 

 

Vefsíðan sem var opnuð er hluti af verkefni Námsgagnastofnunar sem einnig gefur út nýja kennslubók/þemahefti og fræðslumynd um loftslagsbreytingar. 

 

Þemaheftið CO ₂ – framtíðin í okkar höndum, sem Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur hefur tekið saman, fjallar um breytingar á loftslagi á jörðinni.  Heftið er væntanlegt í janúar. Fræðslumyndin Gróðurhúsaáhrif – loftslagsbreytingar og hlýnun jarðar, fjallar um veðurfarsbreytingar sem hafa orðið á jörðinni, m.a. með rannsóknum á Suðurskautslandinu.

 

Á vefsíðunni CO ₂ – framtíðin í okkar höndum, verða meðal annars kennsluleiðbeiningar sem Helgi Grímsson skólastjóri Sjálandsskóla tók saman, krækjur og myndefni, auk verkefna sem hægt er að vinna í tengslum við efni fræðslumyndarinnar. 

 

Á heimasíðu Sjálandsskóla má sjá fleiri myndir frá heimsókn Menntamálaráðherra 11. nóvember sl.