21. okt. 2009

Menningarveisla í tali og tónum

Hin árlega Haustvaka Kvennakórs Garðabæjar var haldin fimmtudagskvöldið 15. október sl. í safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli. Haustvakan markar upphafið að veglegu 10 ára afmælisári Kvennakórsins sem stendur til septembermánaðar á næsta ári.
  • Séð yfir Garðabæ

Hin árlega Haustvaka Kvennakórs Garðabæjar var haldin fimmtudagskvöldið 15. október sl. í safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli. Haustvakan markar upphafið að veglegu 10 ára afmælisári Kvennakórsins sem stendur til septembermánaðar á næsta ári. Haustvakan er einn liður í samstarfssamningi kórsins við Garðabæ. 

 


Haustvakan er sannkölluð menningarveisla sem hefur fest sig í sessi í listalífi Garðabæjar og skapað vettvang fyrir listafólk úr bænum til að kynna sig. Bæjarbúar og aðrir velunnarar kórsins brugðust ekki sl. fimmtudagskvöld  frekar en fyrri ár því fjölmennt var og stemmning afar góð.  Þakklátir gestir gæddu sér á heimalöguðu góðgæti kórkvenna í hlýlega skreyttum sal Kirkjuhvols á meðan þeir nutu þess sem fram var borið, í tali og tónum.

 

Fjölbreytt dagskrá


Rithöfundurinn Kristín Helga Gunnarsdóttir stjórnaði Haustvökunni af leiftrandi snilld eins og henni einni er lagið. Sólveig Birna Júlíusdóttir, nemandi í sellóleik við Tónlistarskóla Garðabæjar, spilaði verk eftir Ravel og Schumann við píanóleik Guðrúnar Dalíu Salómonsdóttur og heilluðu þær gesti með fallegum og öruggum flutningi.


Sú hefð hefur skapast að bæjarlistarmaður Garðabæjar mætir á Haustvökuna og kynnir sig og verk sín. Laufey Jensdóttir myndlistarmaður og listamaður Garðabæjar 2009, hélt gestum hugföngnum með erindi sínu um fjársjóð þann sem fólginn er æsku landsins.


Ármann Helgason klarinettuleikari og Sólveig Anna Jónsdóttir píanóleikari stigu næst á stokk og fóru á kostum í túlkun sinni á frönskum tónverkum eftir Pierné og Messager og hlutu ákaft lófaklapp og bravóhróp fyrir.


Í fyrri hluta samkomunnar flutti kórinn nokkur af Jónasarlögum  Atla Heimis Sveinssonar, við ljóð ættjarðarskáldsins Jónasar Hallgrímssonar. Lögin eru einstaklega fallegar  tónsmíðar en auk píanóleikara kórsins, Sólveigar Önnu Jónsdóttur, spilaði Ármann Helgason með kórnum. Í lok vökunnar hljómaði austur-evrópsk sveitastemmning í Moravískum dúettum  eftir tékkneska tónskáldið Anton Dvorak við íslenska texta Böðvars Guðmundssonar.

 

Verkefni framundan


Í upphafi aðventunnar sameina svo Kvennakór Garðabæjar og Kvennakór Hafnafjarðar söngkrafta sína og halda tvenna jólatónleika þar sem m.a. verður flutt tónverk spænskra og suður-amerískra jólalaga fyrir kvennakór, hörpu, gítar og marimbu. Fylgist með á heimasíðu kórsins www.kvennakor.is