16. okt. 2009

Vegleg afmælishátíð FG

Fjölbrautaskólinn í Garðabæ er 25 ára á þessu hausti. Nemendur, starfsfólk og aðrir velunnarar skólans fögnuðu tímamótunum á veglegri afmælishátíð í skólanum í hádeginu í dag
  • Séð yfir Garðabæ

Fjölbrautaskólinn í Garðabæ er 25 ára á þessu hausti. Nemendur, starfsfólk og aðrir velunnarar skólans fögnuðu tímamótunum á veglegri afmælishátíð í skólanum í hádeginu í dag. Menntamálaráðherra og formaður Nemendafélagsins opnuðu af því tilefni nýjan vef skólans www.fg.is og Gunnar Einarsson bæjarstjóri afhenti skólanum málverk eftir bæjarlistamanninn Laufeyju Jensdóttur.

Gott samstarf bæjarins og FG

Gestir afmælishátíðarinnar fylltu hátíðarsal FG í hádeginu í dag þegar formleg dagskrá hófst en opið hús verður í skólanum til kl. 15 í dag. Nemendur skólans voru eðlilega í stóru hlutverki í dagskránni en þar fluttu einnig ávörp Þorsteinn Þorsteinsson skólameistari, Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra og Gunnar Einarsson bæjarstjóri.

 

Gunnar lýsti því góða samstarfi sem hefur ávallt verið á milli bæjarins og Fjölbrautaskólans og hversu stóran hlut skólinn ætti í bæjarbragnum og bæjarmyndinni. Til að undirstika það góða samstarf afhenti hann, f.h. bæjarstjórnar, skólameistara verkið Lífsins sprotar eftir Laufeyju Jensdóttur, bæjarlistamann Garðabæjar 2009.

Tákn um sérstöðu hvers og eins

Gunnar lýsti málverkinu þannig með orðum listamannsins:  "En í huga listamannsins eru trjásprotarnir tákngervingar vaxtar og framgangs. Á sprotunum vaxa laufblöð sem koma og fara ekki ólíkt þeirri hringrás sem er undirstaða skólans þar sem nemendur koma og fara. Laufblöðin eiga líka öll sín séreinkenni og sérstöðu þegar betur er að gáð, ekki síður en við mannfólkið þó svo að við séum öll af sama meiði. En bláa laufblaðið er einmitt tákn um hreinleika og sérstöðu hvers og eins sem vert er að virða í tímanna rás."

Þorsteinn Þorsteinsson skólameistari á 25 ára afmæli FG

Þorsteinn Þorsteinsson skólameistari ávarpaði gesti samkomunnar.

Arnar Gunnarsson, formaður Nemendafélag FG og Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra opnðu nýjan vef skólans www.fg.is

Gospelkór Jóns Vídalín skemmti gestum með söng