9. okt. 2009

Opið hús í Kveikjunni

Opið hús verður í frumkvöðlasetrinu Kveikjunni, Strandgötu 11 Hafnarfriði, mánudaginn 12. október kl. 9.-10.30.
  • Séð yfir Garðabæ

Opið hús verður í frumkvöðlasetrinu Kveikjunni, Strandgötu 11 Hafnarfriði, mánudaginn 12. október kl. 9.-10.30.

Samstarf þriggja sveitarfélaga

Að Kveikjunni standa Garðabær, Hafnarfjarðarbær og Sveitarfélagið Álftanes í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Miklar vonir eru bundnar við samstarf sveitarfélaganna þriggja og Nýsköpunarmiðstöðvar en nú þegar hafa 16 frumkvöðlar komið sér fyrir í Kveikjunni. Þar fá þeir aðstöðu, tengslanet og stuðning til að hrinda viðskiptahugmyndunum í framkvæmd undir handleiðslu sérfræðinga Impru á Nýsköpunarmiðstöð.

Fjölbreyttar viðskiptahugmyndir

Viðskiptahugmyndirnar sem verið er að vinna að í Kveikjunni eru fjölbreyttar og snúa m.a. að tölvuleikjagerð, útflutningi á íslensku tónverki og afþreyingarefni og framleiðslu á raföryggisvörum. Hugmyndirnar eru mislangt á veg komnar, sumar eru á þróunarstigi en einnig eru á setrinu sprotafyrirtæki sem hafa hafið starfsemi. Eitt fyrirtækjanna, Remake Electric, varð í fyrsta sæti í hugmyndasamkeppninni á vegum verkefnisins Start09 6. október sl.


Nokkur rými eru enn laus á Kveikjunni og eru áhugasamir hvattir til að kynna sér aðstöðuna á mánudag.

Dagskrá opins húss

Stutt dagskrá hefst kl. 9:00 þar sem bæjarstjórar Garðabæjar, Hafnarfjarðar og Álftaness flytja stutt ávörp. Þorsteinn Ingi Sigfússon forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar og Sigríður Ingvarsdóttir, framkvæmdastjóri frumkvöðlasetra Nýsköpunarmiðstöðvar segja frá starfseminni. Einnig munu þrír frumkvöðlar í Kveikjunni segja frá verkefnum sínum.


 

Kveikjan er sjötta setrið sem Nýsköpunarmiðstöð opnar eftir efnahagshrunið fyrir ári síðan í samstarfi við aðra aðila. 106 einstaklingar eru nú með aðstöðu á nýju setrunum og eru margar góðar viðskiptahugmyndir farnar að bera ávöxt. Auk þess hafa tugir einstaklinga fengið aðstöðu og stuðning tímabundið á setrunum og horfið til annarra verka.