Skráning hafin í skólagarða og fjölskyldugarðar í Hæðahverfi tilbúnir til útleigu
Skráning er nú hafin í skólagarða Garðabæjar sem staðsettir eru við Silfurtún, fyrir neðan leikskólann Bæjarból. Garðarnir verða opnir frá kl. 8-16 alla virka daga og eru þeir opnir öllum börnum í Garðabæ. Þátttökugjald er 4.500 kr, innifalið eru plöntur og útsæði auk áburðar og annars sem þarf til að rækta fallegan og gómsætan garð. Starfsfólk verður á staðnum í allt sumar til að aðstoða börnin við garðræktina. Til að skrá sig þarf bara að mæta, foreldrar og fjölskyldur eru velkomin með börnunum. Frekari upplýsingar um skólagarðana má finna hér.
Fjölskyldugarðar í Hæðahverfi
Nú eru fjölskyldugarðarnir í Hæðahverfi tilbúnir til útleigu. Þar er um að ræða 3 x 5m garða og kostar 4.500 kr að leigja hvern reit. Í görðunum er snyrting og hægt að fá lánuð áhöld og vatn til vökvunar. Skráning í fjölskyldugarðana fer fram í þjónustuveri Garðabæjar í síma 525-8500 eða með því að senda skilaboð á gardabaer@gardabaer.is