24. sep. 2009

Útikennsla við Vífilsstaðavatn

Útikennsla eða svokölluð umhverfisfræðsla fór fram dagana 22.-24. september sl. við Vífilsstaðavatn í boði umhverfisnefndar Garðabæjar. Útikennslan við vatnið er nú haldin í tíunda sinn.
  • Séð yfir Garðabæ

Útikennsla eða svokölluð umhverfisfræðsla fór fram dagana 22.-24. september sl. við Vífilsstaðavatn í boði umhverfisnefndar Garðabæjar. Útikennslan við vatnið er nú haldin í tíunda sinn.  

Náttúrufræðikennsla í 6. bekk


Í september á hverju ári fer 6. bekkur í Sjálandsskóla, Flataskóla og Hofsstaðaskóla að Vífilsstaðavatni og Vífilsstaðalæk þar sem fram fer kennsla um lífríkið í og umhverfis vatnið og lækinn. Kennslan við vatnið er liður í náttúrufræðikennslu í skólunum, en þessa vinsælu útikennslu hefur umhverfisnefnd Garðabæjar boðið upp á síðan 1999.

 

Bjarni Jónsson frá Veiðimálastofnun hefur verið umhverfisnefnd innan handar og séð um útikennsluna öll 10 árin og hafa skólarnir notið góðs af sérfræðiþekkingu hans.  

 

Fyrst fór kennslan á lífríki vatnsins og umhverfi fram með fjölrituðum kennslugögnum en síðan með veglegri kennslubók og kennaraleiðbeiningum eftir Sólrúnu Harðardóttur. Námsefnið sem er notað heitir Vífilsstaðavatn - gersemi Garðabæjar og er útgefið árið 2001 af umhverfisnefndinni.



Á heimasíðu Hofsstaðaskóla er hægt að sjá fleiri myndir þar sem nemendur eru komnir með rannsóknarefnið heim í skólastofu.

 

Heimsfræg hornsíli 

Vífilsstaðavatn er eitt lífríkasta vatn landsins miðað við fjölda dýra á fermetra. Í vatninu er að finna fjöldann allan af smádýrum t.d. efjufló, rykmýslirfur, vatnabobba, vorflugupúpur og blóðsugur.

 

Í vatninu eru einnig fiskar og eru það urriðar, bleikjur, álar, og hornsíli. Það hefur komið fram í rannsóknum á lífríki vatnsins að í vatnasviði Vífilsstaðavatns mætast Evrópu- og Ameríkuálar en Ísland er eina landið sem vitað er að það gerist. Hornsílin eru heimsfræg sökum kviðgaddaleysi þeirra og er Vífilsstaðavatn það eina hér á landi og eitt fárra vatna í heiminum sem er með slík síli.


Sjá nánari upplýsingar um Vífilsstaðavatn hér á heimasíðunni.

 

 


Bjarni Jónsson frá Veiðimálastofnun leiðbeinir áhugasömum nemendum.