22. sep. 2009

Tvenn gull til Hofsstaðaskóla

Hofsstaðaskóli fékk tvenn gullverðlaun í Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda í ár.
  • Séð yfir Garðabæ

Hofsstaðaskóli fékk tvenn gullverðlaun í Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda í ár. Annars vegar fékk skólinn gullverðlaun fyrir mestan fjölda innsendra hugmynda og hins vegar fékk nemandi skólans Ragnar Björgvin Tómasson í 6. Ö.M. gullverðlaun í flokknum hugbúnaður.

 

Þrír nemendur úr Hofsstaðaskóla komust í úrslit í Nýsköpunarkeppninni í ár. Það voru þau Elísabet Emma Pálsdóttir, Harpa Guðrún Hreinsdóttir og Ragnar Björgvin Tómasson. Þeim bauðst í framhaldinu að sækja vinnusmiðju þar sem þau fengu að þróa hugmyndir sínar nánar, búa til veggspjöld eða annað sem lýsti hugmynd þeirra sem best.



Lokahóf Nýsköpunarkeppninnar fór fram laugardaginn 19. september í Grafarvogskirkju. Þar voru mættir 44 hugmyndamiðir úr 23 grunnskólum landsins ásamt foreldrum, kennurum og öðrum velunnurum.

 

Forseti Íslands verndari keppninnar afhenti 15 verðlaunahöfum verðlauni í lokahófinu. Þeirra á meðal var Garðbæingurinn Ragnar Björgvin Tómasson í 6. Ö.M í Hofsstaðaskóla. Hann hlaut gullviðurkenningu fyrir hugmynd sína Boltaflaut sem er í flokknum hugbúnaður.


Á lokahófinu voru einnig veittar viðurkenningar til þeirra þriggja skóla sem áttu flestar innsendar hugmyndir.  Bronsviðurkenningu hlaut Brúarárskóli í Fljótsdalshéraði. Silfurviðurkenningu hlaut Þjórsárskóli í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og gullviðurkenningu hlaut Hofsstaðaskóli og fær því þann heiður að varðveita farandbikarinn í ár.

 

Sædis S. Arndal kennari í smíði og nýsköpun hélt utan um vinnu nemenda Hofsstaðaskóla sem tóku þátt í keppninni.

 

Myndin er tekin eftir verðlaunaafhendinguna. Á henni eru frá vinstri: Margrét Harðardóttir, skólastjóri Hofsstaðaskóla, Ragnar Björgvin Tómasson, Elísabet Emma Pálsdóttir og Sædís S. Arndal

 

Vefur Nýsköpunarkeppninnar.