20. ágú. 2009

Annar áfangi Sjálandsskóla

Annar áfangi Sjálandsskóla var formlega tekinn í notkun fimmutudaginn 20. ágúst með athöfn sem öllum bæjarbúum var boðið til.
  • Séð yfir Garðabæ

Annar áfangi Sjálandsskóla var formlega tekinn í notkun fimmutudaginn 20. ágúst með athöfn sem öllum bæjarbúum var boðið til.

Nýtist öllu hverfinu

Gunnar Einarsson bæjarstjóri og Páll Hilmarsson, formaður skólanefndar grunnskóla héldu ávörp við það tilefni og óskuðu starfsfólki, nemendum og foreldrum til hamingju með þennan nýja áfanga skólans. Í máli þeirra kom fram að með þessum áfanga er aðstaða til náms og kennslu í Sjálandsskóla með því besta sem þekkist hér á landi. Helgi Grímsson skólastjóri lagði áherslu á að aðstaðan í nýja húsnæðinu ætti ekki aðeins að nýtast í skólastarfinu, heldur ætti hún að þjóna öllu hverfinu og nýtast bæði á skólatíma og utan hans. Þar er til dæmis horft til starfsemi eldri borgara en miðstöð hennar er í Jónshúsi í næsta nágrenni við skólann.

ÍAV sá um framkvæmdir við nýja áfangann og afhenti Kristján Arinbjarnar, framkvæmdastjóri fyrirtækisins bæjarstjóra lykla að skólanum.

Frábær aðstaða fyrir íþróttir og tónlist

Í nýja áfanganum er afar góð aðstaða til íþróttaiðkunar, þ.m.t. sundlaug, fjölnota íþróttasalur, danssalur sem hentar vel fyrir jazzballet og eróbik og þrek- og þolsalur. Þar er einnig tónmenntastofa, hljómsveitarherbergi og þrjú herbergi til tónlistarnáms. Þá er í áfanganum aðstaða fyrir tómstundaheimili Sjálandsskóla og hátíðar- og matsalur skólans auk eldhúss. Í kjallara er geymsla sem mun í framtíðinni m.a. nýtast kajakklúbbi skólans.

Hönnun styður við einstaklingsmiðað nám

Sjálandsskóli í Garðabæ tók til starfa haustið 2005. Sjálandsskóli er einsetinn grunnskóli fyrir nemendur í 1.-9. bekk en verður frá skólaárinu 2010-2011 fyrir nemendur upp í 10. bekk. Öll hönnun skólans miðar að því að styðja við einstaklingsmiðað nám og skapandi skólastarf, m.a. með opnum, björtum og aðlaðandi rýmum. Þá hefur í hönnun verið lögð áhersla á að skólalóðin nýtist vel í starfi skólans, til dæmis í útikennslu.


Framkvæmdir við annan áfanga skólans hófust í maí 2009 og nam kostnaður við þær um 900 milljónum króna. Annar áfangi skólans er 2.970 fm að flatarmáli en alls er skólinn rúmlega 6.900 fm.

Skólinn er teiknaður af Orra Árnasyni hjá Zeppelin arkitektum.

Annar áfangi Sjálandssskóla

Nýr hátíðarinngangur skólans er frá nýja áfanganum.

Nemendur Sjálandsskóla tóku á móti gestum með hljóðfæraleik

Hrafnhildur Helga Össurardóttir, til vinstri, og Erlen Anna Steinarsdóttir léku á selló fyrir gesti athafnarinnar. Þær eru báðar nemendur í Sjálandsskóla.

Nemendur Sjálandsskóla tóku á móti gestum með hljóðfæraleik

Stefán Gunnarsson, lék á harmonikku fyrir gestina en hann er líka nemandi í Sjálandsskóla.

Gestir við vígslu annars áfanga Sjálandsskóla

Fjölmargir nemendur, foreldrar og íbúar í Sjálandi nýttu tækifærið og skoðuðu
þessa glæsilegu skólabyggingu.