23. jún. 2016

Úthlutun úr 19. júní sjóði

Úthlutun úr 19. júní sjóði fór fram að loknu Kvennahlaupi í Garðabæ laugardaginn 20. júní sl. Við mat á umsóknum er skoðað hvert gildi verkefnis fyrir umsækjendur er og áhrif þess á og fyrir íþróttaiðkun kvenna.
  • Séð yfir Garðabæ

Úthlutun úr 19. júní sjóði fór fram að loknu Kvennahlaupi í Garðabæ laugardaginn 20. júní sl. 19. júní sjóður var stofnaður að tilstuðlan íþrótta og tómstundaráðs Garðabæjar og framkvæmdanefndar um kvennahlaup í Garðabæ árið 1993.

Tilgangur sjóðsins er að styrkja og efla þátt kvenna í íþróttum í Garðabæ með því að veita fé til uppbyggingar á því sviði.  Fjölbreytni hefur verið í úthlutun styrkja til slíkra verkefna undanfarin ár sem mörg hafa skilað góðum árangri og þannig elft og aukið þáttöku kvenna í íþróttum.

 

Á myndinni hér fyrir ofan eru lengst til vinstri: Ragnhildur Inga Guðbjartsdóttir formaður 19. júni sjóðs, aftari röð: Sandra, Björk og Gunnhildur Yrsa frá meistaraflokki kvenna í knattspyrnu, lengst til hægri: Anna Día Erlingsdóttir íþróttafræðingur. Fremri röð (eftir stærðarröð) ungar fótboltastúlkur: Erlen Anna, Anna Ragnhildur Sól og Matthildur Stella.

 

Á fundi íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar 8. júní sl. var ákveðið að veita tveimur verkefnum styrk úr sjóðnum. Hvort verkefni um sig fær 450.000 kr. úr 19. júní sjóði.

Þjálfun fyrir eldri konur

Fyrra verkefnið sem hlaut styrk er verkefni Önnu Díu Erlingsdóttur íþróttafræðings um þjálfun fyrir eldri konur sem tóku þátt í rannsókn Ólafar Geirsdóttur næringarfræðings haustið 2008. Verkefnið verður framhald af þeirri rannsókn og verður unnið markvisst með áframhaldandi uppbyggingu líkamshreysti þeirra kvenna.

Markmið þessa verkefnis er að bjóða upp á líkamsræktarþjálfun í tækjasal a.m.k. 3 x í viku í 3 mánuði í senn fyrir eldri konur undir sérstakri handleiðslu íþróttafræðings. Komið hefur í ljós að miklu máli skiptir, með tilliti til árangurs, að þessi hópur fái faglega ráðgjöf og stuðning.   Í framhaldi verkefnisins verður vonandi, á grunni þess, hægt að bjóða upp á slíka líkamsrækt, sem val fyri eldri konur, í líkamsræktarstöðvum víða um land. 


 

Verkefni meistaraflokks kvenna í knattspyrnu

Seinna verkefnið sem fær styrk úr 19 júní sjóði er verkefni meistaraflokks kvenna í knattspyrnu hjá Stjörnunni, Brúum bilið. 

Verkefnið hefur það markmið að fjölga stúlkum sem iðka knattspyrnu og hlúa betur að þeim stúlkum sem eru byrjaðar að æfa. Að brúa bilið milli kynjanna í knattspyrnu með því að leikmenn meistaraflokks kvenna mæti reglulega á æfingar hjá yngri flokkum, drengja og stúlkna.

Fréttir, myndir og annað kynningarefni verður búið til í þeim tilgangi að styrkja umgjörð í kringum starf meistaraflokks kvenna með það að markmiði að efla enn þátttöku kvenna í knattspyrnu.