18. jún. 2009

Bæjarlistamaður Garðabæjar 2009

Laufey Jensdóttir myndlistarmaður er bæjarlistamaður Garðabæjar árið 2009. Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar afhenti Laufeyju Jensdóttur starfsstyrk listamanns við hátíðlega athöfn í Vídalínskirkju á þjóðhátíðardaginn 17. júní.
  • Séð yfir Garðabæ


Laufey Jensdóttir myndlistarmaður er bæjarlistamaður Garðabæjar árið 2009. Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar afhenti Laufeyju Jensdóttur starfsstyrk listamanns við hátíðlega athöfn í Vídalínskirkju á þjóðhátíðardaginn 17. júní.

Allt frá árinu 1992 hefur Garðabær veitt starfsstyrk til listamanns eða listamanna. Sá aðili sem hlýtur starfsstyrkinn hefur fengið þann heiður að vera nefndur bæjarlistamaður Garðabæjar. Bæjarstjórn Garðabæjar velur bæjarlistamann í samráði við menningar- og safnanefnd bæjarins.

Laufey Jensdóttir er fædd í Reykjavík árið 1961 en uppalinn í Dalasýslu.  Hún hefur verið búsett í Garðabæ sl. 25 ár.  Laufey útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2002 og ári síðar lauk hún Diplómaprófi í kennslufræði frá sama skóla.  

Fjölbreytileikinn ríkjandi
Laufey hefur sérhæft sig í leirlist en að undanförnu hafa aðrir miðlar verið henni hugfólgnir.  Í verkum sínum hefur hún einbeitt sér að því að láta fjölbreytileikann vera ríkjandi auk þess að leggja á borð hugrenningar sínar á málefnum líðandi stundar.

 

Laufey hefur haldið einkasýningar á verkum sínum og tekið þátt í mörgum samsýningum hér á landi. Meðal samsýninga sem hún hefur tekið þátt í eru sýningar á Korpúlfsstöðum, handverks- og hönnunarsýningar og samsýningu listamanna í Garðabæ á vegum menningarmálanefndar.   Laufey starfar sem myndlistarkennari við Rimaskóla í Reykjavík og starfrækir vinnustofu að Korpúlfsstöðum.

 

Mikill kraftur á meðal myndlistarmanna
Mikill kraftur er á meðal myndlistarmanna í Garðabæ þessa dagana og Laufey er meðal þeirra sem hafa haft frumkvæði að því að virkja þennan kraft.  Laufey ásamt fleirum stóðu fyrir myndlistarsýningu á Garðatorginu í lok apríl á þessu ári sem vakti mikla athygli. 

 

Í framhaldi af þeirri sýningu hafa myndlistarmenn í Garðabæ haldið áfram með hugmyndavinnu og framundan eru fleiri spennandi verkefni þessa hóps, s.s. listagjörningur við upphaf Kvennahlaupsins í Garðabæ að ógleymdri Jónsmessugleði miðvikudaginn 24. júní nk. þar sem hugmynd Laufeyjar að myndlistarsýningu utandyra verður að veruleika. En með því vilja listamenn leggja sitt að mörkum til að skapa eftirminnilega kvöldstund þar sem bæjarbúar geta komið saman til að gefa, gleðja og njóta.