10. jún. 2009

Sumarfólk að störfum

Atvinnuátak skólafólks hefur farið vel af stað og þegar er byrjað að vinna mörg þörf verk. Fjölmargar ábendingar hafa borist frá bæjarbúum.
  • Séð yfir Garðabæ

Atvinnuátak skólafólks hefur farið vel af stað og eru starfsmenn átaksins þegar byrjaðir að vinna mörg þörf verk.

Viðhald útivistarstíga verður eitt af stóru verkefnum átakshópanna í sumar. Fyrsta verkið í þeim flokki var yfirlagning lækjarstígsins í Svínahrauni fyrir sunnan Vífilsstaði. Af öðrum stígum sem unnið verður að í sumar má nefna hinn vinsæla stíg í kringum Vífilsstaðavatn.

Einn hópur hefur undanfarið unnið við að klippa lúpínu við Vífilsstaðavatn til þess að hefta útbreiðslu hennar í friðlandinu. Það verk gengur mjög vel að sögn garðyrkjustjóra. 

Þá hafa aðrir hópar tínt rusl í byggingarhverfum, fjörum og hraunum í útmörkinni.

Fjölmargar góðar ábendingar hafa borist frá bæjarbúum um verk sem þarf að vinna. Farið er yfir allar ábendingar sem berast og reynt að bregðast við. Garðbæingar eru áfram hvattir til að senda inn ábendingar og taka þannig þátt í að gera Garðabæ að snyrtilegasta og umhverfisvænsta bæ landsins.

Ábendingar um verkefni fyrir sumarstarfsfólk