24. maí 2016

Metfjöldi hugmynda í Nýsköpunarkeppni

Nemendur í Hofsstaðaskóla stóðu sig vel í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna í ár eins og jafnan áður.
  • Séð yfir Garðabæ

Nemendur í Hofsstaðaskóla stóðu sig vel í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna í ár eins og jafnan áður. Alls sendu nemendur skólans skólans inn 842 hugmyndir sem jafngildir því að hver nemandi hafi sent inn fjórar hugmyndir sem er met á landsvísu. Sex nemendur skólans komust í úrslit og fengu þeir allir verðlaun.

Nýsköpunarkeppni grunnskólabarna er hugmyndasamkeppni fyrir nemendur í 5. 6. og 7. bekk í grunnskóla. Keppnin var nú haldin í 24. sinn. Í ár bárust rúmlega 1700 hugmyndir í keppnina og valdi dómnefnd hugmyndir 40 nemenda til þátttöku í úrslitum, þar af sex úr Hofsstaðaskóla.

Nemendurnir úr Hofsstaðaskóla sem komust í úrslit eru:

  • Hekla Ylfa Einarsdóttir - fékk 1. verðlaun í 5. bekk fyrir hugmyndina baðkarspíparinn. Hekla fékk fartölvu í verðlaun ásamt gjafabréfi í Fab Lab.  
  • Sonja Ingimundardóttir - fékk 2. verðlaun í 6. bekk fyrir ofnæmisskynjara. Verðlaunin voru spjaldtölva.
  • Ásdís Ólafsdóttir - fékk 3. verðlaun í 5. bekk fyrir morgunverðarskál með halla. Ásdís fékk snjallsíma í verðlaun.
  • Agnes Ómarsdóttir - fékk viðurkenningarskjal fyrir að komast í úrslit og gjafabréf í Háskóla unga fólksins, fyrir hitamottu.
  • Hera Björk Arnardóttir og Lára Guðný Þorsteinsdóttir - fengu viðurkenningarskjal fyrir að komast í úrslit og gjafabréf í Fab Lab fyrir klósettopnara.

Keppninni lauk formlega með hófi sem fram fór í Háskólanum í Reykjavík.

Nemendum Hofsstaðaskóla og kennara þeirra Sædís S. Arndal er óskað til hamingju með þennan frábæra árangur.

Sjá frétt á vef Hofsstaðaskóla og vef Nýsköpunarkeppninnar, nkg.is

Myndir frá lokahófi keppninnar og vinnusmíðju fyrir keppnina eru á myndasíðu Hofsstaðaskóla