Hönnuðu tómstundarými
Í vetur hafa nemendur áttunda bekkjar í Sjálandsskóla tekið þátt í samkeppni um hönnun á tómstundarými fyrir unglingadeildina. Svæðið átti að hanna með þarfir 13 – 16 ára unglinga í huga og fór dágóður tími hjá þátttakendum í að skipuleggja þau rými sem þóttu mikilvægust svo sem fundarrými fyrir nemendaráð og afþreyingarsvæði fyrir spil, borðtennis, billiard o.fl. Mikilvægast þótti hópunum þó að hafa sem flesta sófa því öll sögðust börnin elska sófa.
Samstarf við IKEA
Tuttugu nemendur tóku þátt í þessu hönnunarverkefni sem var unnið í samstarfi við IKEA.
Fjórum tillögum var skilað í samkeppnina og þær kynntar dómnefnd nú nýlega, en hún var skipuð teymi frá IKEA. Verkefnin voru skemmtilega og vel fram sett og höfðu dómarar að mörgu að hyggja eins og framsetningu, formi, litavali, efnivið, skreytingu og heildarmynd.
Ein af tillögunum sem bárust var valin og er stefnan að nýtt tómstundasvæði unglinga verði tekið í notkun fyrir skólalok í vor. Útfærsla svæðisins í samræmi við vinningstillöguna er styrkt af IKEA.
Allir fengu gjöf fyrir þátttökuna
Allir nemendur sem tóku þátt í verkefninu fengu gjöf frá IKEA í viðurkenningarskyni fyrir framlag sitt til samkeppninnar og vel unnin störf. Gjöfin innihélt sundtösku, klakabox, inniskó og handklæði sem er aldeilis gott veganesti fyrir sumarið.
Á myndinni eru höfundar vinningstillögunnar, þau: Ingveldur, María, Ásdís Rún, Haukur og Helgi Freyr.