20. maí 2016

Heiðruð fyrir vel unnin störf

Erlu Bil Bjarnardóttur, umhverfisstjóra Garðabæjar var veitt heiðursmerki SATS á aðalfundi samtakanna sem nýlega var haldinn á Siglufirði.
  • Séð yfir Garðabæ
Erlu Bil Bjarnadóttur, umhverfisstjóra Garðabæjar var veitt heiðursmerki SATS (Samtaka tæknimanna hjá sveitarfélögum) á aðalfundi samtakanna sem nýlega var haldinn á Siglufirði. Á skjali sem fylgdi merkinu segir að heiðursmerkið sé veitt fyrir vel unnin störf á sviði umhverfis-, framkvæmda- og tæknimála hjá sveitarfélögum og fyrir framtak til eflingar SATS í heild og félagsstarf í þágu samtakanna.

Erla Bil hefur starfað hjá Garðabæ frá árinu 1986, lengst af sem garðyrkjustjóri bæjarins en sem umhverfisstjóri frá árinu 2013.

Björn Bögeskov Hilmarsson, stjórnarmaður í SATS sem átti þátt í valinu á heiðursmerkishafanum segir Erlu Bil afar vel að heiðursmerkinu komna. "Hún hefur verið ötull starfsmaður og frábær talsmaður fyrir græna geirann í gengum tíðina. Erla Bil var einn af stofnmeðlimum Samgus (Samtaka garðyrkju- og umhverfisstjóra sveitarfélaganna) árið 1993. Hún hefur alla tíð verið mikill driffjöður í þessu félagi og oft setið í stjórn þess. Til marks um hversu öflugt félagið er, þá hefur meðlimum fjölgað jafnt og þétt og eru þeir í dag rúmlega fimmtíu talsins. Erlu Biljar verður sárt saknað þegar hún á næstunni yfirgefur sviðið og lýkur sinni starfsævi en við öll vonumst til að geta leitað ráða til hennar í framtíðinni því hún hefur ráð og lausnir við öllu því sem við erum að fást við."

Samstarfsfólk Erlu Biljar óskar henni innilega til hamingju með heiðursmerkið.

Á myndinni sést Anna Guðrún Gylfadóttir, byggingarfulltrúi Garðabæjar og nýr formaður SATS sæma Erlu Bil heiðursmerkinu.

Heiðursskjalið sem fygldi merkinu