20. maí 2016

Næringarríkur og rótarstyrkjandi áburður

Undanfarnar tvær vikur hefur garðyrkjudeild Garðabæjar borið áburð á hljóðmanir, álagssvæði og opin svæði.
  • Séð yfir Garðabæ

Undanfarnar tvær vikur hefur garðyrkjudeild Garðabæjar borið áburð á hljóðmanir, álagssvæði og opin svæði. Þessa dagana er verið að bera á trjáreiti en áburðargjöf lýkur næstu daga.

Nokkrar fyrirspurnir hafa borist um áburðargjöfina og hvort hún sé nauðsynleg.

Smári Guðmundsson garðyrkjustjóri svarar því til að mjög mikilvægt sé að bera næringarríkan og rótarstyrkjandi áburð á hljóðmanir og álagssvæði, sérstaklega þegar um nýjar manir sé að ræða. "Manir sem ekki er borið á verða oft rýrar og illgresi og rof myndast í þeim. Við höfum notað kjötmjöl á þessi svæði á vorin undanfarin ár þar sem kjötmjölið hefur komið mjög vel út í öllum mælingum sem næringarríkur áburður. Kjötmjöl er seinleystur áburður sem inniheldur öll helstu næringarefni sem gróður þarf til vaxtar, í hentugum hlutföllum. Kjötmjöl inniheldur tíu til fimmtán sinnum meira köfnunarefni en húsdýraáburður og áburðaráhrif kjötmjöls virðast vara í nokkur ár.“

Hvað varðar ásókn máva í kjötmjölið segir Smári að þar sem áburðurinn sé í mjölformi finni fuglinn mest lykt en fái lítið að éta enda fari mest af mjölinu beint í grassvörðinn. Lyktin dragi fuglinn vissulega að sem geti valdið óþægindum en það sé vonandi yfirstaðið núna. "Garðyrkjustjóri biðst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta hefur valdið en þetta er gert af nauðsyn og er vonandi yfirstaðið á þessu ári," segir Smári að lokum.