17. apr. 2009

Jazzhátið Garðabæjar 2009

Jazzhátíð Garðabæjar verður haldin dagana 23.-25. apríl nk. Á hátíðinni verður fjölbreytt dagskrá þar sem margir og ólíkir jazztónlistarmenn koma fram. Ókeypis er á alla tónleikana.
  • Séð yfir Garðabæ

Jazzhátíð Garðabæjar verður haldin dagana 23.-25. apríl nk. Á hátíðinni verður fjölbreytt dagskrá þar sem margir og ólíkir jazztónlistarmenn koma fram. Ókeypis er á alla tónleika hátíðarinnar.

Jazzhátíð Garðabæjar er nú haldin í fjórða sinn á vegum menningar- og safnanefndar Garðabæjar. Listrænn stjórnandi hátíðarinnar er Sigurður Flosason tónlistarmaður og fyrrum bæjarlistamaður Garðabæjar.

Aðalstyrktaraðili hátíðarinnar er Íslandsbanki. Ókeypis er inn á alla tónleika á hátíðinni í boði Íslandsbanka og menningar- og safnanefndar Garðabæjar. Til að tryggja sér sæti er tónlistarunnendum bent á að sækja sér miða fyrirfram í útibú Íslandsbanka að Garðatorgi 7 frá og með mánudeginum 20. apríl nk., en einnig verður hægt að fá miða á tónleikastað.

Fjölbreytt dagskrá

Hátíðin fer fram á þremur ólíkum tónleikastöðum: í Urðarbrunni, sal Fjölbrautaskólans í Garðabæ, í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju og í Vídalínskirkju sjálfri.

Dagskráin skartar fjölmörgum  listamönnum á ýmsum aldri sem spila ólíkar stíltegundir jazztónlistar. Sem fyrr er sérstök áhersla á listamenn sem tengjast Garðabæ en listamönnum alls ótengdum Garðabæ er einnig gert hátt undir höfði.

Fimmtudagur 23. apríl – sumardagurinn fyrsti

Urðarbrunnur, hátíðarsalur Fjölbrautaskólans í Garðabæ kl. 20, stórtónleikar.

Bláir skuggar

Bláir skuggar – jazz/blús kvartett Sigurðar Flosasonar
Gestasöngvari: Stefán Hilmarsson
Sigurður Flosason: Saxófónn
Þórir Baldursson: Hammond orgel
Jón Páll Bjarnason: Gítar
Pétur Östlund: Trommur

Opnunaratriði:
Stórsveit Tónlistarskóla Garðabæjar
Stjórnandi: Bragi Vilhjálmsson

Að vanda hefst hátíðin með stórum tónleikum að kvöldi sumardagsins fyrsta. Á þessum opnunartónleikum hátíðarinnar í sal Fjölbrautaskólans í Garðabæ koma fram Bláir skuggar, jazz-blús kvartett saxófónleikarans Sigurðar Flosasonar, en auk hans skipa kvartettinn fulltrúar elstu og reyndustu kynslóðar íslenskra jazzmanna.

Sérstakur gestur á þessum tónleikum verður stórsöngvarinn Stefán Hilmarsson, núverandi bæjarlistamaður nágrannasveitarfélagsins Kópavogs.

Stórsveit Tónlistarskóla Garðabæjar leikur í 15-20 mínútur áður en formleg dagskrá hefst. Á þessum tónleikum mætast því bæði kynslóðir, bæjarfélög og tónlistarstílar í spennandi, aðgengilegri og blúsaðri jazztónlist.

Föstudagur 24. apríl

Kirkjuhvoll, safnaðarheimili Vídalínskirkju kl. 21.

Ómar Guðjónsson

Tríó Ómars Guðjónssonar
Ómar Guðjónsson: Gítar
Þorgrímur Jónsson: Kontrabassi
Matthías Hemstock: Trommur

Nýbakaður handhafi íslensku tónlistarverðlaunanna, Garðbæingurinn Ómar Guðjónsson leiðir tríó sitt á tónleikum í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju föstudaginn 24. apríl kl. 21. Auk Ómars skipa tríóið þeir Þorgrímur Jónsson á kontrabassa og Garðbæingurinn Matthías Hemstock á trommur. Tríóið flytur tónlist sem blandar saman rokki og jazzi á lagrænan og spennandi hátt.

Laugardagur 25. apríl

Vídalínskirkja kl.16

Eyþór og Ellen

Ellen og Eyþór: Sálmar
Ellen Kristjándsóttir: Söngur
Eyþór Gunnarsson: Hljómborð

Hátíðinni lýkur með sálmatónleikum Ellenar Kristjánsdóttur og Eyþórs Gunnarssonar í Vídalínskirkju á kosningadaginn, laugardaginn 25. apríl kl. 16. Á þessum tónleikum töfra frábærir listamenn fram ljúfan sálmaheim.