17. apr. 2009

Hreinsunardagar í Garðabæ

Hreinsunardagar verða í Garðabæ frá 18. apríl til 8. maí. Þá daga eru Garðbæingar hvattir til að taka höndum saman við að fegra bæinn fyrir vorið með því að hreinsa upp rusl í nærumhverfinu.
  • Séð yfir Garðabæ

Hreinsunardagar verða í Garðabæ frá 18. apríl til 8. maí. Þá daga eru Garðbæingar hvattir til að taka höndum saman við að fegra bæinn fyrir vorið með því að hreinsa upp rusl í nærumhverfinu. Hópar sem taka sig saman um að hreinsa tiltekið svæði geta fengið hvatningarstyrk að launum og nýtt hann til að fagna góðu verki, t.d. með grillveislu.

Nágrannar, félög og skólar

Hreinsunarátakið er kjörið verkefni fyrir nágranna sem vilja koma saman, taka til hendinni og grilla saman eftir gott átak. Félagasamtök og skólar voru einnig öflugir í átakinu síðastliðið vor en alls tóku um 20 hópar svæði til hreinsunar.

Daganna 18. apríl til 8. maí verður hægt að sækja um þátttöku í verkefninu og fá úthlutað svæði. Hafið samband við garðyrkjustjóra og gefið upp ábyrðarmann hópsins. Hópurinn verður þá skráður, honum úthlutað svæði eða það svæði sem hann valdi samþykkt, og áætlaður hreinsunartími skráður. Að verki loknu er tilkynnt til garðyrkjustjóra um afraksturinn og ábyrðamaður fær þá hvatningastyrkinn afhentan.

Rusl sem safnast af svæðinu á að setja í hrúgur sem þurfa að vera aðgengilegar fyrir starfsmenn bæjarins sem munu hirða þær upp svo og annað sem til fellur við hreinsunina.
Síðastliðið sumar sendu nokkrir hópar myndir frá hreinsuninni til garðyrkjustjóra. Það var mjög skemmtilegt framtak sem gjarnan má endurtaka.

Vorhreinsun lóða 4. til 8. maí

Árleg þjónusta við garðeigendur verður dagana 4. – 8. maí. Þá fara starfsmenn bæjarins um bæinn og taka upp garðúrgang og greinar sem settar hafa verið út fyrir lóðamörk.

Matjurtaátak meðal almennings

Boðið verður upp á aukna möguleika á ræktun matjurta í sumar.

Þeir eru:

  1. Garðlöndin við Álftanesveg, þar eru 55 reitir um 100m2 að stærð. Þar hafa aðallega verið ræktaðar kartöflur. Garðlandið er leigt út tilbúið til niðursetningar á 2.600 krónur.
  2. Skólagarðar við Silfurtún fyrir börn á aldrinum 7 – 13 ára, þar eru um 70 reitir, 12.5 m2 að stærð. Skólagarðarnir opna 2. júní. Gjaldið er efnisgjald kr. 2.600, fyrir kálplöntur o.fl. Þar starfa tveir leiðbeinendur, opið kl. 8:00 til 16:00.
  3. Fjölskyldugarðar í Hæðahverfi. Þar verða leigðir út um 30 reitir til matjurtaræktunar, 25 m2 að stærð hver. Góð aðstaða er á staðnum með snyrtingu og hægt er að fá garðverkfæri lánuð. Leiðbeinandi mun starfa þar hálfan daginn eftir hádegi og leiðbeina fólki.

Matjurtagarðarnir verða nánar kynntir á lokahátíð hreinsunardaganna á Garðatorgi 8. maí.

Lokahátíð á Garðatorgi 8. maí

Lokahátíð hreinsunardaganna verður haldin föstudaginn 8. maí á Garðatorgi 7, frá kl.16:00 til 18:00. Þar verða afhent viðurkenningarskjöl til öflugra hópa í hreinsunarátakinu. Átak í matjurtaræktun verður kynnt og boðið upp á tónlist og veitingar.