Leikfélag Garðalundar slær í gegn
Nemendur í leikfélagi Garðalundar hafa sýnt söngleikinn Mamma Mía við fullu húsi í Garðaskóla að undanförnu við frábærar undirtektir sýningargesta. Leikstjóri sýningarinnar er Þórunn Clausen.
40 manns taka þátt í uppfærslunni með söng, leik, dönsum, búningum og hljómsveitum. Óhætt er að segja að þessi sýning sé með þeim bestu á undanförnum árum og lítt til sparað, að sögn Gunnar Richardssonar, forstöðumanns Garðalundar.
Fjölmargir aðstandenda skólans lögðu hönd á plóginn til að fullkomna sýninguna. Höfundur dansa er Ragnheiður Dísa Gunnarsdóttir, fatahönnunarhópur Garðaskóla hannaði og saumaði búningana, hljómsveitarstjórnin er í höndum Skúla Gests og Árna Guðjónssonar sem einnig leiða samspilshópa í Garðaskóla og Ólafur Guðjónsson húsvörður skólans smíðaði leikmynd svo eitthvað sé nefnt.
Uppselt er á allar sex sýningarnar sem verða fyrir páska og búið að setja á fimm aukasýningar eftir páska. Miðasala á aukasýningarnar gengur vel. Bóka má miða í Garðalundi í síma 590 2575 kl. 13-15.
Í gagnrýni á sýninguna sem Árna Beintein ritaði segir m.a. "Þórunn hefur tvímælalaust unnið mikið þrekvirki við uppsetningu á þessum söngleik. Leikmyndin er stílhrein og einföld en lítur mjög vel út og kemur öllum inn í Abba-stemninguna. Búningana sáu krakkarnir sjálfir um en þeir eru svo svalir að það er eins og atvinnubúningahönnuðir hafi verið við störf.......Þessi sýning er klárlega miklu betri en myndin og ég ætla að sjálfsögðu að mæta aftur (og aftur) á þessa gargandi snilld!"