Skólamálsverðir boðnir út
Bæjarráð samþykkti nýlega að segja upp samningi við fyrirtækið Skólamat ehf. um hádegisverði fyrir grunnskólanemendur og bjóða út skólamálsverði í samstarfi við Ríkiskaup.
Samþykkt bæjarráðs er í samræmi við tillögu vinnuhóps sem bæjarstjórn skipaði sl. haust til að fara yfir matarmál grunnskólanema fyrir næsta skólaár. Í hópnum áttu sæti fulltrúi skólastjóra, tveir fulltrúar foreldra og tveir fulltrúar starfsmanna skólaskrifstofu.
Jafnframt er óskað tilboða í hádegisverði í félagsaðstöðu eldri borgara í Jónshúsi og í heimsendar hádegismáltíðir til aldraðra og öryrkja.
Í auglýsingunni kemur fram að markmiðið með útboðinu sé að tryggja sem lægst vöruverð samfara gæðum og góðri þjónustu. Um leið að tryggja að fjölbreytileiki og hollusta í samsetningu matvæla uppfylli þarfir/kröfur viðskiptavina í hverju mötuneyti fyrir sig.
Útboðið er auglýst á vef Ríkiskaupa og þar verða útboðsgögn jafnframt aðgengileg frá 1. apríl nk. Tilboð verða opnuð 12. maí.