23. mar. 2009

HönnunarMars í Garðabæ

Dagana 26. – 29. mars verða hönnunardagar í Garðabæ og mikið um að vera. Hönnunarsafn Íslands stendur fyrir viðburðum en einnig ætla Fjölbrautaskólinn í Garðabæ og Grunnskólar Garðabæjar að vera með sýningu á hönnun
  • Séð yfir Garðabæ

Dagana 26. – 29. mars verða hönnunardagar í Garðabæ og mikið um að vera. Hönnunarsafn Íslands stendur fyrir viðburðum en einnig ætla Fjölbrautaskólinn í Garðabæ og grunnskólar Garðabæjar að vera með sýningu á hönnun og gæða göngugötuna á Garðatorgi lífi ásamt BARA LIST-IÐJU, vinnustofu Bjargeyjar Ingólfsdóttur.

Opnar geymslur

Í Hönnunarsafni Íslands í Lyngási 7 - 9, verða opnar geymslur í tilefni af 10 ára starfsafmæli safnsins. Stór hluti safneignar Hönnunarsafnsins verður til sýnis í austurhluta safnsins en þetta er í fyrsta sinn sem almenningi gefst kostur á að skoða geymslur og gripi undir leiðsögn starfsfólks.

Leiðsagnir verða:
föstudaginn 27. mars kl. 12.
laugardaginn 28. mars kl. 14 og 16.
sunnudaginn 29. mars kl. 14 og 16. 

Erindi um Svein Kjarval

Laugardaginn 28. mars kl. 15 mun Arndís S. Árnadóttir listfræðingur flytja erindi og segja frá húsgögnum Sveins Kjarvals (1919-1981) í safnhúsi Hönnunarsafnsins.

Sveinn hefði orðið níræður á þessu ári og er kærkomið að minnast við þau tímamót þessa afkastamikla húsgagnahönnuðar. Sveinn Kjarval teiknaði bæði innréttingar og stök húsgögn. Í erindinu verður skoðað hvað húsgögn hans segja okkur um nútímalega húsgagnagerð, tíðarandann og hvernig samstarfi hönnuða við húsgagnaframleiðendur var háttað á þessum tíma. Í miðrými safnhússins getur að líta nokkur húsgögn Sveins í eigu safnsins.

Garðatorg - Framtíðarhönnuðir

Í grunnskólum Garðabæjar og í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ er lögð mikil áhersla á listsköpun og hönnun í skólastarfinu. Í vetur hafa nemendur unnið að skemmtilegum verkefnum með kennurum sínum sem sýnd verða á hönnunarsýningu á Garðatorgi. Göngugatan verður gædd lífi með sýningu skólanna á skapandi og frjóum verkum nemenda, en þau verk eru afrakstur margra mánaða vinnu og bera vott um sköpunargleði og ríkt ímyndunarafl.

BARA List-iðja

BARA vinnustofa Bjargeyjar Ingólfsdóttur við Garðatorg verður opin. Þar gefst gestum tækifæri á að prófa og skoða hönnun hennar: hálskragann, orminn langa og féþúfuna ásamt fleiri verkum. BARA svo þér líði betur!

Á opnunardegi 26.mars verður boðið upp á drykk. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

HönnunarMars

Hönnunardagar í Garðabæ eru hluti af hátíðinni HönnunarMars sem skipulögð er af Hönnunarmiðstöð Íslands. Yfir 150 viðburðir eru á dagskrá HönnunarMars svo sem sýningar, ráðstefna, málþing, fyrirlestrar og opin hús.

Nánari upplýsingar eru á vef Hönnunarmiðstöðvar: http://www.honnunarmidstod.is/HonnunarMars2009/

www.honnunarsafn.is