10. mar. 2009

Fuglatalning í Garðabæ

Flórgoðapar verpti á Vífilsstaðavatni sumarið 2008 og kom tveimur ungum á legg. Þetta er í fyrsta sinn sem vitað er til þess að flórgoði hafi verpt á vatninu.
  • Séð yfir Garðabæ

Flórgoðapar verpti á Vífilsstaðavatni sumarið 2008 og kom tveimur ungum á legg. Þetta er í fyrsta sinn sem vitað er til þess að flórgoði hafi verpt á vatninu. Sama sumar urpu fjögur flórgoðapör á Urriðavatni sem eru fleiri pör en áður er vitað til að hafi orpið þar.

Þetta er meðal upplýsinga sem koma fram í nýrri fuglatalningaskýrslu fyrir árið 2006, með viðbótum frá 2007 og 2008 sem unnin var fyrir umhverfisnefnd.

Alls sáust 32 tegundir fugla á talningasvæðinu sumarið 2006 sem er sami fjöldi og 2004. Tvær tegundir sáust árið 2006 sem ekki komu fram á árunum 2000-2005, þ.e. tildra og steindepill. 

Lífríki vatnanna í Garðabæ er fjölbreytt og mikilvægt er allir sem njóta útivistar í nágrenni þeirra leggist á eitt við verndun þess. Í því samhengi er rétt að ítreka að lausaganga hunda er alfarið bönnuð í friðlandi Vífilsstaðavatns og við Urriðavatn. Góð umgengni um útivistarsvæðin er alltaf mikilvæg en þó sérstaklega núna þegar vorar og varp- og ungatíminn hefst.

Skýrslan í heild er aðgengileg á vefnum undir umhverfi og skipulag/ umhverfismál/ fuglatalningar.

Höfundar skýrslunnar eru Jóhann Óli Hilmarsson og Ólafur Einarsson.