9. mar. 2009

Ánægja með störf dagforeldra

Foreldrar eru almennt ánægðir með daggæslu barns síns hjá dagforeldrum. Foreldrar telja að barninu líði vel í daggæslunni og að aðbúnaður þar sé góður og öruggur.
  • Séð yfir Garðabæ

Foreldrar eru almennt ánægðir með daggæslu barns síns hjá dagforeldrum. Foreldrar telja að barninu líði vel í daggæslunni og að aðbúnaður þar sé góður og öruggur.

Þetta kemur fram í niðurstöðum viðhorfakönnunar sem fræðslu- og menningarsvið Garðabæjar lét gera í janúar á þessu ári á meðal foreldra barna sem eru í daggæslu hjá dagforeldrum í Garðabæ. 

Niðurstöður könnunarinnar sýna að gera má betur í upplýsingagjöf frá dagforeldrum til foreldra varðandi gæsluna og þær reglur sem þar eru í gildi. Dagleg samskipti skipa þar stóran sess. Einnig þarf að auka upplýsingar um hvernig eftirliti er háttað með dagforeldrum. Greinilegt er af svörum foreldra að þeir telja mikilvægt að geta valið á milli dagforeldra, leikskóla og smábarnaleikskóla fyrir barn sitt eftir að fæðingarorlofi lýkur.

Könnunin er einn liður í því að auka áhrif foreldra á þjónustu við börn sín. Könnunin var gerð í lok janúar með því að sendir voru tölvupóstar til 43 foreldra. Svör bárust frá 21 sem gerir 48,4% svörun.

Skýrsla með niðurstöðum könnunarinnar.