27. feb. 2009

Kynningarfundur um 1. bekk

Foreldrum barna sem hefja nám í 1. bekk grunnskóla í haust er boðið til kynningarfundar miðvikudaginn 4. mars
  • Séð yfir Garðabæ

Foreldrum barna sem hefja nám í 1. bekk grunnskóla í haust er boðið til kynningarfundar í sal Tónlistarskóla Garðabæjar miðvikudaginn 4. mars kl. 20-21.30, þar sem forsvarsmann skólanna í Garðabæ sem innrita börn í 1. bekk kynna starfið í skólunum.

Skólarnir eru; Alþjóðaskólinn, Barnaskóli Hjallastefnunnar, Flataskóli, Hofsstaðaskóli og Sjálandsskóli. Á kynningarfundinum gefst foreldrum tækifæri til að sjá og heyra á einum stað hvers konar skólastarf fer fram í grunnskólum í Garðabæ. Skólarnir starfa allir eftir sömu lögum og reglugerðum en þrátt fyrir það eru þeir ólíkir.

Rafrænn bæklingur á vefnum

Kynningarbæklingurinn „Hvaða skóli hentar mínu barni best?” hefur verið gefinn út í rafrænu formi. Í bæklingnum eru á einum stað hagnýtar upplýsingar um starf ofangreindra fimm grunnskóla þar sem þeir gera grein fyrir helstu áherslum í starfi sínu. Bæklingurinn er aðgengilegur hér á vefnum. Einnig verður hægt að nálgast hann á vef hvers grunnskóla.

Garðabær hefur gert samninga við einkareknu skólana í Garðabæ, Barnaskóla Hjallastefnunnar og Alþjóðaskólann vegna náms nemenda þar. Samkvæmt þeim eru ekki greidd skólagjöld fyrir grunnskólabörn úr Garðabæ í þessum skólum. Markmiðið með þessari samþykkt er að stuðla að fjölbreytni í framboði á námi en til þess þarf meðal annars að tryggja fjölbreytni í rekstri skóla.

Miklar upplýsingar á einum stað

Forráðamenn barna eru hvattir til að kynna sér vel þá skóla sem í boði eru með hagsmuni barnanna að leiðarljósi. Á kynningarfundinum sem haldinn verður 4. mars nk. gefst tækifæri til að fá miklar upplýsingar á einum stað. Einnig verður foreldrum gefið tækifæri til að beina spurningum til forsvarsmenn skólanna á fundinum.

Í framhaldi af fundinum verður innritun í skólana auglýst. Innritun barna í grunnskóla Garðabæjar fer fram í hverjum skóla og á vef Garðabæjar www.gardabaer.is og lýkur 31. mars.

Bæklingur um nám í 1. - 7. bekk