5. feb. 2009

Trjágróður á lóðamörkum

Garðyrkjustjóri sendir á næstunni út um 200 bréf til lóðaeigenda sem verða beðnir um að klippa trjágróður sem vex út yfir lóðamörk.
  • Séð yfir Garðabæ
Starfsmenn garðyrkjudeildar bæjarins hafa framkvæmt venjubundna könnun á gróðri á lóðamörkum í bænum. Í ljós kom að víða vex trjágróður út yfir lóðamörk. Í slíkum tilfellum þarf að klippa hann og snyrta svo að allir komist ferða sinna án hindrana. Þeir garðeigendur sem þurfa að gera bragarbót hjá sér fá sent bréf næstu daga ásamt leiðbeiningum um almenna umhirðu á trjágróðri í görðum. Alls verða send út um 200 bréf.

Trjá- og runnagróður sem vex út yfir lóðamörk eða slútir yfir þau getur þrengt að umferð á gangstéttum og stígum. Trjágróður á lóðamörkum getur einnig valdið vandræðum við að hreinsa snjó á gangstéttum og stígum og hafa trjágreinar valdið tjóni á snjóruðningstækjum.
Ráðgjafar voru fengnir til samstarfs við gerð leiðbeininganna þar sem fjallað er um ýmsa verkþætti er snúa að trjágróðri við lóðamörk. Ýtarlegri leiðbeiningar verða gerðar aðgengilegar á vef bæjarins í næstu viku og eru allir garðeigendur hvattir til að nýta sér þær.

Heimilt að klippa trjágróður sem skapar hættu
Samkvæmt byggingarreglugerð sem tók gildi 1. júlí 1998 er lóðarhöfum skylt að halda vexti trjágróðurs innan lóðamarka. Þar sem trjágróður fer út fyrir lóðamörk við götur, gangstíga eða opin svæði er bæjaryfirvöldum heimilt að fjarlægja það sem veldur truflun eða óprýði á kostnað lóðarhafa. Þetta á sérstaklega við þar sem gróðurinn veldur óþægindum vegna umferðar, byrgir útsýn eða skapar aðra hættu. Einnig ættu lóðarhafar að hafa í huga hugsanlega skaðabótaábyrgð, verði slys sem rekja má til gróðurs sem vaxið hefur út fyrir lóðamörk. Það er því góð regla allra garðeigenda að fylgjast vel með trjágróðri sínum og klippa hann eftir þörfum til að forðast öll vandræði. Leitið óhikað aðstoðar garðyrkjumanna til að allrar fagmennsku sé gætt við klippingu trjágróðursins.

Reglur um hæð trjágróðurs

Í byggingarreglugerðinni eru ýmsar takmarkanir á notkun trjágróðurs í görðum. Trjágróður við lóðamörk samliggjandi lóða má ekki verða hærri en 1,8 metrar nema lóðarhafar/nágrannar samþykki annað. Gróðurinn má þó vera hærri þar sem lóðamörk eru að götu, gangstíg eða opnu svæði. Trjám sem verða 6 metrar á hæð eða hærri verður að planta a.m.k. þremur metrum frá lóðamörkum samliggjandi lóða. Þessar reglur eru ekki afturvirkar, en rétt er að garðeigendur eldri lóða kynni sér þær og meti hvort ástæða sé til að bregðast við.

Grein frá garðyrkjustjóra um trjágróður á lóðamörkum er birt í Garðapóstinum sem kemur út í dag, 5. febrúar.


Mynd sem sýnir hvernig trjágróður þrengir að göngustíg