Óbreyttar álögur á íbúa
Samdrætti í tekjum Garðabæjar á árinu 2009 verður mætt með hagræðingu, sparnaði og lækkun launa. Útsvar verður áfram óbreytt, 12,46% sem er með því lægsta sem gerist, og gjaldskrár, þar á meðal leikskóla og tómstundaheimila verða óbreyttar, samkvæmt fjárhagsáætlun sem samþykkt var á fundi bæjarstjórnar í gær. Áætlunin gerir ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu að fjárhæð 83 mkr og að veltufé frá rekstri verði 14%.
Í áætluninni er reiknað með að útsvarstekjur Garðbæinga lækki um 13% miðað við innheimt útsvar á árinu 2008.
Leikskólagjöld hækka ekki
Áætlunin gerir ráð fyrir að álögum á íbúa verði haldið óbreyttum þrátt fyrir lækkun tekna. Útsvar, gjaldskrár og álagningarhlutfall fasteignaskatts verði óbreytt og að fasteignagjöld að undanskildu sorphreinsunargjaldi hækki ekki á árinu. Leikskólagjöld hækka ekki og ekki heldur gjöld vegna tómstundaheimila grunnskóla.
Á fundi bæjarstjórnar í gær var jafnframt samþykkt að fela bæjarstjóra að leggja fram tillögur um hvernig staða barna og ungmenna verði best tryggð. Sérstök áhersla er lögð á að börn og ungmenni geti haldið áfram venjubundnu skóla-, íþrótta- og/eða æskulýðsstarfi þrátt fyrir að kjör fjölskyldna skerðist.
Til að mæta lægri tekjum er reiknað með sparnaði og hagræðingu í rekstri stofnana og að þjónustustig rekstrareininga verði í einhverjum tilfellum endurskoðað. Laun bæjarfulltrúa munu lækka um 5 - 10% árinu í samræmi við ákvörðun um lækkun þingfaralauna. Einnig er gert ráð fyrir að launakostnaður nefnda lækki á árinu og að laun helstu stjórnenda lækki um 5 – 10% vegna skerðingar á yfirvinnu.
Framkvæmdir dragast verulega saman á árinu en haldið verður áfram við byggingu fimleikhúss við Ásgarð og 2. áfanga Sjálandsskóla. Frekari vinnu við deiliskipulag Hnoðraholts verður frestað en unnið verður að verkefnum á sviði friðlýsinga og verndunar.
Góð skuldastaða
Skuldastaða Garðabæjar er góð og bærinn er með nánast allar skuldir í ísl. kr. Langtímaskuldir nema um 2.000 mkr.
Vegna óvissu í efnahagsmálum þjóðarinnar samþykkti bæjarstjórn sérstaka tillögu um að á árinu 2009 fari fram ársfjórðungsleg endurskoðun á fjárhagsáætlun bæjarins í fyrsta sinn í apríl 2009. Komi þá í ljós breytingar á forsendum mun bæjarstjórn gera nauðsynlegar breytingar til að tryggja að heildarútgjöld sveitarfélagsins fari ekki fram úr heildartekjum þess.