Alþjóðlegt grunnskólanám
Samningar um áframhaldandi samstarf Garðabæjar og tveggja grunnskóla, sem bjóða upp á nám á ensku samkvæmt alþjóðlegri námskrá innan veggja grunnskóla Garðabæjar, voru undirritaðir í dag.
Samningarnir eru annars vegar við Alþjóðaskólann sem starfar í húsnæði Sjálandsskóla og hins vegar við International Academy of Iceland (IAI) sem hóf sitt fyrsta starfsár innan veggja Garðaskóla í haust.
Í Alþjóðaskólanum er boðið upp á alþjóðlegt nám fyrir nemendur á aldrinum 5-13 ára. Eftir nám í Alþjóðaskólanum geta nemendur haldið áfram í IAI sem brúar bilið frá 7. bekk og að alþjóðlegu IB námi í Menntaskólanum í Hamrahlíð.
Tilraunaskólar þar sem kennt er á ensku
Báðir skólarnir eru skilgreindir sem tilraunaskólar. Í því felst að þeir starfa samkvæmt alþjóðlegum námskrám og eru undanþegnir því að fylgja aðalnámskrá grunnskóla. Námskrá Alþjóðaskólans tekur mið af bandarískum viðmiðunum og alþjóðlegri námskrá í kjarnanámsgreinum (International Primary Curriculum) og námskrá IAI tekur mið af viðukenndri bandarískri fjarnáms-námskrá. Í báðum skólunum fer kennsla fram á ensku en námið við IAI er að miklu leyti fjarnám í gegnum vefinn.
Samstarf og félagsleg tengsl
Markmið samstarfsins við skólana er að gefa nemendum alþjóðlegu skólanna, Sjálandsskóla og Garðaskóla tækifæri til að kynnast menningu hvers aðila og efla félagsleg tengsl og skilning þeirra á milli. Alþjóðaskólinn getur, skv. samningnum, óskað eftir kennslu í öðrum námsgreinum en kjarnanámsgreinum fyrir nemendur sína svo sem íþróttum, tónlist, listum, smíði og textílmennt með nemendum Sjálandsskóla eftir því sem aðstaða leyfir. Nemendur IAI munu eiga þess kost að velja sér nám í list- og verkgreinum með nemendum Garðaskóla og einnig sækja þeir íþróttakennslu með jafnöldrum í Garðaskóla. Nemendur IAI eiga sama aðgang að félagsmiðstöðinni Garðalundi og aðrir jafnaldrar í Garðabæ.
Garðbæingar borga ekki skólagjöld
Báðir skólarnir eru einkaskólar og hafa heimild til að innheimta gjöld vegna námsvistar nemenda sem eru með lögheimili utan Garðabæjar. Garðabær skuldbindur sig samkvæmt samningunum til að greiða framlag með nemendum sem eiga lögheimili í Garðabæ og verða þeir því ekki krafðir um skólagjöld.
Á myndinni eru frá vinstri: Páll Hilmarsson, formaður skólanefndar, Gunnar Einarsson bæjarstjóri, Berta Faber, skólastjóri Alþjóðaskólans og Elaine Kjos, skólastjóri International Academy of Iceland.
Sjá vefi skólanna:
www.internationalschool.is/
www.internationalacademy.is/