8. des. 2008

Ljósin tendruð á jólatrénu

Ljósin voru tendruð á vinabæjarjólatrénu laugardaginn 6. desember sl. Jólatréð sem er gjöf frá vinabænum Asker í Noregi er staðsett fyrir utan ráðhús Garðabæjar að Garðatorgi.
  • Séð yfir Garðabæ

Ljósin voru tendruð á vinabæjarjólatrénu laugardaginn 6. desember sl. Jólatréð sem er gjöf frá vinabænum Asker í Noregi er staðsett fyrir utan ráðhús Garðabæjar að Garðatorgi. 

Dagskráin úti við hófst síðdegis á laugardeginum með fögrum tónum frá blásarasveit Tónlistarskóla Garðabæjar. Gunnar Pálmason formaður Norræna félagsins í Garðabæ bauð gesti velkomna. Að því loknu afhenti sendiherra Noregs á Íslandi, Margit Tveiten, tréð formlega og Páll Hilmarsson forseti bæjarstjórnar Garðabæjar veitti því viðtöku. Skólabörn úr Hofsstaðaskóla komu fólki í jólaskap með fallegum jólalögum.

Fjölmenni var mætt á Garðatorgið og fólk á öllum aldri skemmti sér vel. Mikil spenna og tilhlökkun var hjá yngri kynslóðinni þegar jólasveinarnir komu fyrr til byggða í tilefni dagsins.  Jólasveinarnir spiluðu og sungu og þóttu þeir standa sig alveg einstaklega vel þetta árið.