19. nóv. 2008

Jólaskeiðin í Hönnunarsafninu

Sýningin Jólaskeiðin stendur nú yfir í sýningarsal Hönnunarsafns Íslands að Garðatorgi.
  • Séð yfir Garðabæ

Sýningin Jólaskeiðin stendur nú yfir í sýningarsal Hönnunarsafns Íslands að Garðatorgi.

Á sýningunni eru tæplega 90 jólaskeiðar. Flestar eru skeiðarnar frá Guðlaugi A. Magnússyni gullsmið sem lét smíða fyrstu skeiðina árið 1946. Árið 1948 var næsta skeið smíðuð og síðan hefur ein jólaskeið verið smíðuð á hverju ári.

Fleiri hafa smíðað og látið smíða skeiðar í tilefni jólanna. Þar má nefna kaffiskeiðaröð sem Magnús E. Baldvinsson úrsmiður lét smíða á árunum 1964 til 1975. Árið 2003 hóf Gull- og silfursmiðjan Erna smíði jólaskeiða og má því segja að hér sé komin löng saga íslenskrar hönnunar og handverks.

Skeiðarnar eru fjölbreyttar. Elstu skeiðarnar eru skreyttar með emaleringu, á þeim má finna tákn jólanna, svo sem kertaljós, jólatré og stjörnur. Einnig sjást frásagnir úr Biblíunni, íslenskar kirkjur og þjóðlegt myndefni svo sem víkingaskip og burstabær. Sjón er sögu ríkari!

Safnið hefur jafnframt gefið út bækling um skeiðina sem fæst í sýningasal safnsins.

Myndin er frá opnun sýningarinnar laugardaginn 15. nóvember. Fjöldi fólks var við opnun hennar og vöktu skeiðarnar mikla athygli viðstaddra. Harpa Þórsdóttir, forstöðumaður safnsins flutti ávarp við það tilefni og Gunnar Einarsson bæjarstjóri opnaði sýninguna.

Sýningin verður opin til 1. febrúar 2009. Sýningasalur safnsins er opinn frá fimmtudögum til sunnudags frá 14-18 og er aðgangur ókeypis.