6. nóv. 2008

Fagrir hausttónar

Hin árlega Haustvaka Kvennakórs Garðabæjar var haldin 31.október sl. í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju. Kvennakórinn telur nú um 42 konur en í upphafi haustsins bættust við tólf nýjar kórkonur
  • Séð yfir Garðabæ

Hin árlega Haustvaka Kvennakórs Garðabæjar var haldin 31.október sl. í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju. Kvennakórinn telur nú um 42 konur en í upphafi haustsins bættust við 12 nýjar kórkonur og tóku þær flestar þátt í Haustvökunni.

Kynnir vökunnar, Kristín Helga Gunnarsdóttir rithöfundur, hóf dagskrána með skemmtilegum inngangi og kynnti síðan kórinn til leiks. Kórinn söng eingöngu íslensk lög í fyrri hluta dagskrárinnar og kórkonur klæddust íslenskum lopa að þjóðlegum sið. Því næst spilaði Sveinbjörn Finnsson, píanónemandi í Tónlistarskóla Garðabæjar fantasíu eftir Beethoven og heillaði gesti með frábærri frammistöðu.

Sú hefð hefur skapast síðustu ár að bæjarlistarmaður Garðabæjar mætir á Haustvöku kórsins og kynnir sig og sín verk. Jóhann forfallaðist vegna aukasýningar í Borgarleikhúsinu en í hans stað mætti leikkonan Halla Margrét Jóhannesdóttir, borin og barnfæddur Garðabæingur. Halla Margrét gerði mikla lukku en hún hefur fengið frábæra dóma fyrir leik sinn í Trúðunum sem nú er sýnt annað árið í röð.

Áður en kórinn steig á svið á ný, hélt Kristín Helga ræðu sem fjallaði um ástandið í þjóðfélaginu þessa dagana á sérlega kómískan hátt eins og henni einni er lagið.

Haustvakan skipar fastan sess í menningarlífi bæjarins og er ætíð góð mæting enda reyna kórkonur að skapa sérstaklega notalega stemmingu þar sem kórkonur bjóða heimabakað góðgæti með kaffisopa. Árlegir aðventutónleikar kórsins verða mánudagskvöldið 8. desember nk. í Digraneskirkju. Á heimasíðu Kvennakórsins er margvíslegur fróðleikur um kórkonur og starfið þeirra, www.kvennakor.is