17. sep. 2008

Endurvinnsluvika í FG

Endurvinnsluvika er haldin í fyrsta sinn á Íslandi og meðal þátttakenda er Fjölbrautaskólinn í Garðabæ
  • Séð yfir Garðabæ

Dagana 15. – 19. september verður haldin endurvinnsluvika í fyrsta sinn á Íslandi. Úrvinnslusjóður stendur að átakinu í samvinnu við umhverfisráðuneyti, menntamálaráðuneyti, Sorpu, Gámaþjónustuna, Íslenska gámafélagið og Endurvinnsluna.

Lögð verður áhersla á að kynna mikilvægi endurvinnslu fyrir íslenskt samfélag, sérstaklega á pappa, pappír og plasti. Sérstök áhersla verður lögð á kynningu fyrir unglinga þar sem kannanir benda til að fólk á aldrinum 16-20 ára standi sig einna verst í flokkun sorps.

Flestir framhaldsskólar landsins taka þátt í endurvinnsluvikunni og þar á meðal er Fjölbrautaskólinn í Garðabæ. Flokkunarílátum hefur verið komið fyrir í skólanum og taka nemendur og starfsmenn skólans þátt í að flokka pappír, dagblöð og pappa frá öðru sorpi. Nýnemar fá einnig fræðslu um mikilvægi endurvinnslu í lífsleiknitímum.  Sjá nánar á heimasíðu FG, www.fg.is

Almenningur getur einnig tekið þátt í átakinu og á heimasíðu Úrvinnslusjóðs, www.urvinnslusjodur.is/endurvinnsluvika eru margar gagnlegar upplýsingar um endurvinnslu.