Allir fá starf í sumar
Allir sem sóttu um sumarstarf hjá Garðabæ og allir sem eru á biðlista eftir sumarstarfi, fá vinnu í sumar samkvæmt ákvörðun bæjarráðs frá því í morgun.
Alls sóttu 256 ungmenni um sumarvinnu innan umsóknarfrests og 78 skráðu sig á biðlista eftir að umsóknarfrestur rann út. Alls fá því yfir 330 ungmenni boð um sumarvinnu hjá bænum. Verið er að vinna við úrvinnslu umsókna og liggur ekki fyrir á þessari stundu hversu margir munu staðfesta ráðningu.
Ungmennin munu vinna við fjölbreytt störf við hreinsun og umhirðu bæjarlandsins, í stofnunum bæjarins, við sumarnámskeið íþrótta- og tómstundafélaga og fleira.
Áætlaður kostnaður við sumarátakið er um 200 milljónir króna en endanleg fjárhæð ræðst af því hversu margir þiggja starf. Á fjárhagsáætlun ársins 2016 var gert ráð fyrir 95 milljónum í sumarátakið.