5. sep. 2008

Kennarar í Sjálandsskóla semja

Nýverið undirrituðu kennarar Sjálandsskóla og fulltrúar Garðabær samkomulag um vinnutilhögun kennara skólans. Markmið samkomulagsins er auka gæði og skilvirkni í starfi skólans
  • Séð yfir Garðabæ

Kennarar Sjálandsskóla og fulltrúar Garðabæjar undirrituðu nýlega samkomulag um vinnutilhögun kennara skólans.  Markmið samkomulagsins er að auka gæði og skilvirkni í starfi skólans og að tryggja enn frekar vinnuumhverfi þar sem kennarar vinna saman sem hópur fagmanna að undirbúningi, framkvæmd og mati skólastarfs. 

Tekur mið af áherslum skólans

Helgi Grímsson, skólastjóri Sjálandsskóla segir að samkomulagið taki mið af starfsáherslum Sjálandsskóla. "Grunnskólinn hefur verið að þróast frá kennslustofnun í lærdómsstofnun sem felst í því að nemandinn ber meiri ábyrgð á námi sínu, að hann læri að læra. Nýjar áherslur í skólastarfi, breytt skipulag og lögboðnar skyldur kalla á breytingar á störfum kennara og á skilgreiningu á vinnutíma yfir skólaárið

Hugmyndafræði Sjálandsskóla í Garðabæ hefur þetta m.a. að leiðarljósi. Sjálandsskóli er opinn skóli sem leggur áherslu á einstaklingsmiðað skólastarf.  Námið byggir á fjölbreyttu hópastarfi og einstaklingsvinnu.  Öflugt samstarf kennarahópsins er forsenda þess að skólastarf af þessum toga gangi upp," segir Helgi.

Reynslan góð af breyttri tilhögun

Helgi segir reynslu kennara í Sjálandsskóla sýna að til þess að koma til móts við sameiginlegar þarfir nemenda, foreldra, starfshópsins og skólans sé æskilegt að taka upp aðra vinnutímaskilgreiningu og vinnutilhögun en kjarasamningar kennara kveða á um og því hafi verið leitað eftir því að gera þetta samkomulag við bæjaryfirvöld í Garðabæ."