3. sep. 2008

Eldri borgarar heimsóttir

Garðabær og Slysavarnafélagið Landsbjörg hafa gert með sér samning um öryggisheimsóknir til allra eldri borgara, 75 ára og eldri, í Garðabæ á næstunni.
  • Séð yfir Garðabæ

Garðabær og Slysavarnafélagið Landsbjörg hafa gert með sér samning um öryggisheimsóknir til allra eldri borgara, 75 ára og eldri, í Garðabæ á næstunni.  
 
Samningurinn felst í því að fulltrúar Slysavarnafélagsins Landsbjargar bjóða þessum hópi eldri borgara í Garðabæ upp á heimsókn þar sem farið verður yfir heimili þeirra m.t.t. slysagildra. Starfsmenn munu einnig aðstoða íbúa við uppsetningu öryggisbúnaðar sé þess óskað. 
 
Slys á öldruðum eru allt of algeng á Íslandi og hafa oft á tíðum alvarlegar afleiðingar fyrir þá sem slasast.Samkvæmt úttekt sem gerð var á slysum eldri borgara og byggir á gögnum frá Slysaskrá Íslands og slysadeild Landspítala-háskólasjúkrahúsi eru heima- og frítímaslys langstærsti slysaflokkurinn eða 75% allra slysa. 18% aldraðra sem slasast í heimahúsum þurfa á innlögn á sjúkrahús að halda og hluti þeirra kemst ekki heim aftur.  Það er því ljóst að mikill ávinningur fylgir því ef tekst að koma í veg fyrir eitthvað af þessum slysum.

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar og Kristinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar, undirrituðu samninginn 2. september 2008 í Jónshúsi, þjónustu- og félagsmiðstöð eldri borgara í Garðabæ.