Heilsuleikskólinn Holtakot 10 ára
Tíu ára afmæli Heilsuleikskólans Holtakots var fagnað fimmtudaginn 28. apríl sl.
Fyrir hádegi voru börnin með búningadag sem búið var að bíða lengi eftir og mættu í leikskólann hinar ýmsu kynjaverur. Börn og starfsfólk hittist í salnum kl. 9.30 ásamt sr. Hans Guðberg Alfreðssyni og sungu saman nokkur vel valin lög, þar á meðal afmælissönginn leikskólanum til heiðurs. Eftir hádegið fóru tveir elstu árgangar leikskólans ásamt starfsfólki deildanna með rútu á Vífilsstaðatún á setningarhátíð Listadaga í Garðabæ en þeir voru haldnir dagana 21. apríl - 2. maí. Þar sem listadagarnir og afmæli leikskólans voru um svipað leyti var ákveðið að skella í eina stóra veislu á Holtakoti og bjóða gestum og gangandi á opið hús á afmælisdaginn sjálfan þann 28. apríl kl. 15-17.
Þema listadaganna var Vorvindar glaðir og var það fléttað inn í Grænfánaverkefnið okkar sem er orka og vatn. Verk barnanna hékk uppi á veggjum um allan leikskólann ásamt öðrum verkefnum sem börnin hafa verið að vinna að í vetur. Einnig héngu uppi myndir af ýmsum viðburðum í skólanum á liðnum vetri ásamt kynningu á þeim þróunarverkefnum sem við höfum tekið þátt í síðastliðinn vetur.
Gestum og gangandi var boðið upp á veglegar veitingar í salnum og má þar nefna afmælisköku, niðurskorna ávexti, heimagert hrökkbrauð, brauð og heimagert pestó.