18. jún. 2008

Bæjarlistamaður 2008

Jóhann Sigurðarson bæjarlistamaður 2008
  • Séð yfir Garðabæ

Jóhann Sigurðarson, leikari og söngvari, er bæjarlistamaður Garðabæjar 2008. Gunnar Einarsson bæjarstjóri afhenti Jóhanni Sigurðarsyni starfsstyrk listamanna árið 2008 við hátíðlega athöfn í Vídalínskirkju á þjóðhátíðardaginn 17. júní.

Jóhann útskrifaðist úr Leiklistarskóla Íslands 1981. Á árunum 1980 til 1988 lagði hann stund á nám í söng og tónlist við Nýja Tónlistarskólann auk þess sem hann haslaði sér völl sem einn af ástsælustu leikurum þjóðarinnar á þeim árum, fyrst hjá Leikfélagi Reykjavíkur og síðar hjá Þjóðleikhúsinu. Jóhann nam einnig söng á Ítalíu á árunum 200-2001.

Farið með mörg burðarhlutverk
Eftir útskrift úr Leiklistarskólanum árið 1981 fékk Jóhann fastráðningu hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Þar starfaði hann í nokkur ár og lék á þeim tíma mörg burðarhlutverk. Jóhann færði sig til Þjóðleikhússins árið 1986 og hefur verið fastráðinn þar allt frá árinu 1987. Jóhann hefur komið við sögu í fjölmörgum uppfærslum í Þjóðleikhúsinu oftsinnis í aðalhlutverkum en alls hefur hann leikið í hátt í þrjú þúsund sýningum í Þjóðleikhúsinu. Jóhann hefur einnig farið með stór sönghlutverk í söngleikjum og í Íslensku óperunni auk þess sem hann hefur komið fram á tónleikum og sungið inn á geisladiska.

Leikið í fjölda kvikmynda

Jóhann hefur ekki bundið sig við leikhúsin heldur einnig gripið önnur tækifæri sem honum hafa boðist á ferlinum. Hann hefur leikið í fjölda kvikmynda, þeirri fyrstu árið 1979, Óðali feðranna og nú síðast í Brúðgumanum eftir Baltasar Kormák og einnig í sjónvarpsmyndum og -þáttum. Hann hefur átt þátt í talsetningu ótal teiknimynda og ljáð rödd sína hátt í eitt hundrað persónum í útvarpsleikritum. Jóhann hefur ennfremur fengist við leikstjórn og verið virkur í félagsstörfum fyrir stétt sína, leikara.
Jóhann starfar um þessar mundir hjá LR og mun á næstunni birtast á fjölunum í leikritinu “Fólkið í blokkinni” eftir Ólaf Hauk Símonarson. Einnig vinnur hann að gerð sjónvarpsseríu ásamt Ólafi Hauki sem ber vinnuheitið Þorpið.


Allt frá árinu 1992 hefur Garðabær afhent starfsstyrk til listamanns eða listamanna. Sá aðili sem hlýtur starfsstyrkinn hefur fengið þann heiður að vera nefndur bæjarlistamaður Garðabæjar. Bæjarstjórn Garðabæjar velur bæjarlistamann í samráði við menningar- og safnanefnd bæjarins.

Á myndinni frá vinstri eru: Páll Hilmarsson, forseti bæjarstjórnar, Jóna Sæmundsdóttir, formaður menningar- og safnanefndar, Jóhann Sigurðarson, og Gunnar Einarsson.