29. apr. 2016

Lokahelgi Listadaga barna og ungmenna framundan

Rúmlega 1600 börn og kennarar úr leik- og grunnskólum í Garðabæ komu saman og skemmtu sér á Vífilsstaðatúni í hádeginu fimmtudaginn 28. apríl sl. Þar var haldin listadagahátíð í tilefni af Listadögum barna og ungmenna sem eru haldnir dagana 21. apríl - 1. maí.
  • Séð yfir Garðabæ

Rúmlega 1600 börn og kennarar úr leik- og grunnskólum í Garðabæ komu saman og skemmtu sér á Vífilsstaðatúni í hádeginu fimmtudaginn 28. apríl sl. Þar var haldin listadagahátíð í tilefni af Listadögum barna og ungmenna sem eru haldnir dagana 21. apríl - 1. maí.  Þema hátíðarinnar í ár er ,,Vorvindar glaðir" og það má með sanni segja að vorvindarnir hafi blásið allhressilega á gesti á Vífilsstaðatúninu í gær.  Dagskráin stóð í um klukkustund og Vilhelm Anton Jónsson var kynnir. Leikskólinn Hæðarból flutti frumsamið lag fyrir hátíðargesti, allir sungu saman nokkur vorlög og ungmenni úr Sjálandsskóla fluttu atriði úr söngleiknum ,,Annie".  Að lokum var endað á skemmtiatriði frá Sirkus Íslands.  Það voru glaðir en veðurbarnir hátíðargestir sem fóru svo með rútum eða fótgangadi heim í skólana að lokinni skemmtun.

Fleiri myndir frá hátíðinni eru á fésbókarsíðu Garðabæjar.

Lokahelgi Listadaga barna og ungmenna framundan

Föstudaginn 29. apríl eru margir leikskólar í Garðabæ með opin hús síðdegis þar sem bæjarbúar eru velkomnir í heimsókn.  Fjölmargar sýningar eru haldnar og þar má nefna sýningu á verkum eftir nemendur í 8. bekk Garðaskóla í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands sem stendur til 8. maí, nemendur á listnámsbraut eru með lokasýningu í Gróskusalnum um helgina og þar er opið frá 14-17.  

Landsmót Samtaka íslenskra skólalúðrasveita - tónleikar á Garðatorgi og í Ásgarði

Tónlistarskóli Garðabæjar kemur að undirbúningi landsmóts Samtaka íslenskra skólalúðrasveita sem  verður haldið í Garðabæ 29. apríl – 1. maí. Um 700 ungmenni, foreldrar og fararstjórar víðs vegar af landinu frá um tuttugu skólahljómsveitum sækja bæinn heim þessa daga.  Föstudaginn 29. apríl geta gestir og gangandi hlýtt á nokkrar sveitir sem ætla að spila á Garðatorgi og í IKEA milli kl. 16 og 18.  
Þátttakendur í landsmótinu bjóða svo til stórtónleika sunnudaginn 1. maí kl. 13 í íþróttamiðstöðinni Ásgarði.

Bók + List og opið hús í Króki á Garðaholti

Laugardaginn 30. apríl er boðið upp á listasmiðjuna Bók+List í Bókasafni Garðabæjar á Garðatorgi.  Í listasmiðjunni gefst þátttakendum kostur á að breyta gömlum bókum í listaverk.  Á sunnudeginum 1. maí verður opið hús í burstabænum Króki á Garðaholti.  Bílastæði eru við samkomuhúsið á Garðaholti.  Í Króki eru varðveitt gömul húsgögn og bærinn sýnir vel húsakost og lifnaðarhætti alþýðufólks á fyrri hluta 20. aldar.  Boðið verður upp á listasmiðju fyrir börn á staðnum kl. 14, ókeypis aðgangur.   

Dagskrá listadaganna er aðgengileg hér á vef Garðabæjar