30. maí 2008

Styrkir úr afrekssjóði afhentir

Styrkir úr afreksjóði íþrótta- og tómstundaráðs voru í gær afhentir sjö íþróttamönnum sem hafa allir náð framúrskarandi árangri í sinni íþróttagrein.
  • Séð yfir Garðabæ

Ragnhildur Inga Guðbjartsdóttir afhenti í gær styrki úr afrekssjóði íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar. Sjóðurinn styrkir íþróttamenn sem hafa náð framúrskarandi árangri í íþrótt sinni og eru í fremstu röð á landsvísu og jafnvel víðar.

Rakel Dögg Bragadóttir handknattleikskona er íþróttamaður Garðabæjar árið 2007 og hlaut hún í gær 100 þúsund krónur úr afrekssjóði sem fylgja þeim titli.

Aðrir sem hlutu styrki eru:

Ari Magnússon. Ari er 16 ára  og er einn efnilegsti kylfingur ungra karla í GKG.  Hann hefur náð mjög góðum árangri í íþrótt sinni, er með forgjöfina 4,3 og kominn í framtíðarhóp unglingalandsliðs Íslands.

Ari fékk 100.000 kr. úr afrekssjóði.

Theódór Sölvi Blöndal. Theódór er  17 ára framúrskarandi kylfingur úr Oddi. Theodór er með forgjöfina 3,5. Hann hefur verið í framtíðarhópi unglingalandsliðsins um skeið en í byrjun þessa árs vann hann sér sæti í unglingalandsliðinu. Síðastliðið sumar var Theódór á verðlaunapalli á flestum þeim mótum sem hann tók þátt í hvort sem var í einstaklingskeppnum eða með sveit sinni í GO. Hann er góð fyrirmynd annara unglinga í klúbbnum. 

Theódór Sölvi fékk 100.000 kr. úr afrekssjóði.

Árni Þorvaldsson. Árni er í skíðalandsliði Íslands og hefur náð sérlega góðum árangri. Hann var víða við keppni sl. vetur og náði m.a. 3. sæti í stórsvigi á móti i Austurríki.Hann náði 7. sæti á alþjóðlegu móti á Ítalíu og fjórða sæti á bosníska meistaramótinu. Árni varð í 22. sæti í svigkeppninni og 15. sæti í  brunkeppninni í Innerkrems í Austurríki. 
Árni stefnir á að komast á Vetrar Ólympíuleikana sem fram fara í Kanada 2010. 

Árni fékk 150.000 kr úr afrekssjóði.

Eygló Myrra Óskarsdóttir.  Eygló Myrra er 17 ára kylfingur frá GKG með 3,3 í forgjöf.
Þótt Eygló Myrra sé ung að árum hefur hún náð geysilega langt í íþrótt sinni og stefnir á nám og æfingar í Bandaríkjunum næsta haust. Eygló Myrra hefur undanfarin tvö ár verið í toppbaráttusætum á innanlandsmótum. Einnig hefur hún látið verulega til sín taka á erlendum mótum sem hún hefur tekið þátt í. Hún varð klúbbmeistari kvenna í GKG á síðasta ári.  Hún stefnir að því að bæta sig enn frekar og komast í A- landsliðið.  Í dag er Eygló Myrra í 4. sæti í Kaupþingsmótaröðinni 2008 og einnig á stigamóti GSI 16-18 ára.
Eygló Mirra fékk 250.000 krónur úr afrekssjóði.

Linda Björk Lárusdóttir.  Linda Björk stundar frjálsar íþróttir ásamt því að vera í fullu nám í líffræði við Háskóla Íslands. Linda bætti sig í öllum greinum á síðasta ári og var valin í A-landslið Íslands í 4x100m hlaupi. Hún hefur æft stíft og unnið til fjölda Íslandsmeistaratitla. Linda Björk er í landsliðshópnum í ár.  

Linda Björk fékk 250.000 kr. úr afrekssjóði.

Ragnheiður Ragnarsdóttir. Ragnheiður var valin íþróttamaður Garðabæjar árið 2006.  Hún er ein besta sundkona Íslands fyrr og síðar. Ragnheiður er á leið á Ólympíuleikana í Kína nú í ágúst og stundar hún því stöðugar æfingar og keppnir. Þess má geta að Garðabær styrkir hana einnig með sérstökum íþróttastyrk í þrjá mánuði í sumar fyrir Ólympíuleikana.

Ragnheiður fékk 350.000 krónur úr afrekssjóði.

Einnig var afhendur styrkur, skv. samþykkt bæjarráðs, til aðalstjórnar Stjörnunnar að upphæð 5,5 milljónir króna, vegna framúrskarandi árangurs meistaraflokka Stjörnunnar í vetur.

Við afhendingu styrkjanna sagði Ragnhildur Inga m.a. að styrkir úr afrekssjóði séu viðurkenningar á afrekum, hvatning til frekari dáða og framfara og að þeim sé ætlað að mæta að einhverju leyti útlögðum kostnaði vegna þjálfunar og keppni.

Á myndinni eru Árni, Ragnheiður, Linda Björk og Eygló Mirra ásamt bæjarstjóra og formanni íþrótta- og tómstundaráðs.