20. maí 2008

Táknatréð í Urriðaholti

Fimm metra hátt tré úr bronsi er fyrsta mannvirkið í Urriðaholti
  • Séð yfir Garðabæ

Listaverkið Táknatréð sem reist hefur verið á Urriðaholti var afhjúpað í gær. Táknatréð er ekki aðeins fyrsta listaverkið í Urriðaholti heldur er það fyrsta mannvirkið í hverfinu.

Listamennirnir sem eiga heiðurinn af Táknatrénu eru hinir frönsku Mathias Augustyniak og Michael Amzalag eða M/M, eins og þeir kalla sig, í samstarfið við listakonuna Gabríelu Friðriksdóttur. M/M hafa unnið náið með mörgum heimsfrægum listamönnum, þar á meðal íslensku listakonunum Björk Guðmundsdóttur og Gabríelu. Samstarf þeirra hefur verið afar farsælt og m.a. var plötuumslag sem þau hönnuðu fyrir Björk tilnefnt til Grammy-verðlaunanna. Á Táknatrénu hangir einmitt allt stafrófið í leturgerð sem listamennirnir hönnuðu og notuðu m.a. fyrir umslag Medúlu, plötu Bjarkar.

Gabríela segir að það hafi verið draumur listamannanna að reisa tréð á óbyggðu svæði í jaðri borgar og geta síðan fylgst með því hvernig byggð rís allt i kringum tréð. Sá staður fannst í Urriðaholti. 

Gabríela lýsir verkinu þannig “tré vex endalaust, það ber fræ sem skapar nýtt líf og er þannig tákn um gott samstarf og gjafmildi enda verður maður ríkur af því að gefa.”
Gabríela segist vonast til að form verksins muni hafa áhrif á íbúa hverfisins og að þeir og hönnuðir hverfisins muni halda áfram með þann anda sem verkið ber með sér, t.d. við hönnun á bekkjum, í teikningum barna og svo framvegis.

Myndasafn með myndum frá afhjúpuninni.