15. maí 2008

Fimm nýir vefir

Fimm nýir vefir á vegum Garðabæjar voru opnaðir í dag. Vefirnir eru gardabaer.is og vefir fyrir alla grunnskóla Garðabæjar.
  • Séð yfir Garðabæ

Fimm nýir vefir á vegum Garðabæjar voru opnaðir við athöfn í Flataskóla, í dag, fimmtudaginn 15. maí  

Vefirnir eru nýr vefur Garðabæjar, www.gardabaer.is og nýir vefir fyrir alla grunnskóla Garðabæjar, www.flataskoli.is, www.hofsstadaskoli.is, www.gardaskoli.is og www.sjalandsskoli.is.

Samræmt viðmót

Með nýju vefjunum er í fyrsta sinn horft heildrænt á alla vefi Garðabæjar. Unnið var sameiginlega að þarfagreiningu fyrir alla vefina og lagt upp með það markmið að búa til samræmt viðmót allra vefja bæjarins.

Vefirnir hafa því allir svipað útlit og veftré allra skólavefjanna eru þau sömu. Næsti áfangi vinnunnar er að gera nýja vefi fyrir leikskóla Garðabæjar sem munu falla inn í sama ramma. Fyrir foreldra þýðir þetta að þeir þurfa aðeins að læra einu sinni á uppbyggingu vefja Garðabæjar, þótt þeir eigi e.t.v. eitt barn í leikskóla, eitt í Flata-, Hofsstaða- eða Sjálandsskóla og eitt í Garðaskóla og þurfi að afla sér upplýsinga frá öðrum stofnunum bæjarins. Markmiðið með samræmingu vefjanna er þannig að gera Garðbæingum og öðrum auðveldara að nálgast upplýsingar frá bæjarfélaginu.

Ráðagóð síða fyrir foreldra

Meðal nýjunga á vef Garðabæjar má nefna ýtarlegar upplýsingar til foreldra um forvarnamál, undir nafninu Ráðagóð. Þar er hægt, á einum stað, að leita upplýsinga um ráð og úrræði ef foreldrar hafa áhyggjur af börnum sínum, t.d. hvað varðar vímuefnanotkun, netfíkn eða hegðunarvanda.

Stór hópur starfsmanna frá öllum stofnunum bæjarins vann að undirbúningi vinnunnar við vefina fyrir Garðabæ og grunnskólana. Sú vinna var unnin með fyrirtækinu Sjá sem er ráðgjafarfyrirtæki í vefmálum.

Nýtt vefkerfi

Í kjölfar þarfagreiningar var keypt nýtt vefkerfi, Lisa, sem heldur utan um alla vefina og býður upp á fjölmarga möguleika til framþróunar. Fyrir innra starf bæjarins þýðir þetta heilmikið hagræði og að umsjónarmenn vefjanna geta haft með sér stóraukið samstarf bæði um endurmenntun og daglegt starf við uppfærslu vefjanna.