21. des. 2016

Alþjóðadegi kóra fagnað í Garðabæ

Sannkölluð söngveisla fór fram sunnudaginn 11. desember sl. þegar kórar úr Garðabæ komu saman í Vídalínskirkju og fögnuðu alþjóðadegi kóra (World Choral Day) með kórahátíð. Alls tóku þátt 140 manns úr sex kórum.
  • Séð yfir Garðabæ

Sannkölluð söngveisla fór fram sunnudaginn 11. desember sl. þegar kórar úr Garðabæ komu saman í Vídalínskirkju og fögnuðu alþjóðadegi kóra (World Choral Day) með kórahátíð. Alls tóku þátt 140 manns úr sex kórum. Hver kór söng eigin efnisskrá auk sameiginlegra laga. Margar af þekktustu jólaperlum veraldar voru fluttar og sannur jólaandi sveif yfir vötnum í Vídalínskirkju þegar kórafólk á öllum aldri hóf upp raust sína.

Kórar sem tóku þátt

Kórarnir sem tóku þátt í kóradeginum voru kór Hofsstaðskóla (stjórnandi Unnur Þorgeirsdóttir), kór Sjálandsskóla (stjórnandi Ólafur Schram), sönghópurinn Söngdísir úr Tónlistarskóla Garðabæjar (stjórnandi Guðrún Jóhanna Jónsdóttir), kór Vídalínskirkju (stjórnandi Jóhann Baldvinsson), Garðakórinn, kór eldri borgara í Garðabæ (stjórnandi Jóhann Baldvinsson) og Kvennakór Garðabæjar (stjórnandi Ingibjörg Guðjónsdóttir).  Einnig lék Hallfríður Ólafsdóttir á þverflautu og Sólveig Anna Jónsdóttir á píanó.

Blómlegt kórastarf

Garðbæingar og aðrir tónleikagestir kunnu svo sannarlega vel að meta framtakið, húsfyllir var og undirtektir góðar.  Kvennakór Garðabæjar stóð að kórahátíðinni í samvinnu við menningar- og safnanefnd Garðabæjar. Kórastarf er einkar blómlegt um þessar mundir í Garðabæ en í dag eru ellefu kórar starfandi í bænum. Mikil ánægja var með hátíðina, bæði hjá kórunum og tónleikagestum, og vonandi vísir að árlegum viðburði í Garðabæ.