19. des. 2016

Húsaleigubætur verða húsnæðisbætur

Ný lög um húsnæðisbætur taka gildi 1. janúar 2017 og þá falla úr gildi lög um húsaleigubætur.
  • Séð yfir Garðabæ

Ný lög um húsnæðisbætur taka gildi 1. janúar 2017 og þá falla úr gildi lög um húsaleigubætur. Húsnæðisbætur verða frá áramótum afgreiddar frá Vinnumálastofnun og allar eldri umsóknir um húsaleigubætur falla þá úr gildi. Sérstakur húsnæðisstuðningur sem tekur við af sérstökum húsaleigubótum verður áfram afgreiddur hjá Garðabæ.

Húsnæðisbætur eru mánaðarlegar greiðslur sem eru ætlaðar til að aðstoða þá sem leigja íbúðarhúsnæði, hvort sem er í félagslega kerfinu, námsgörðum eða á almennum leigumarkaði. Markmið nýju laganna er að lækka húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda með greiðslu húsnæðisbóta vegna leigu á íbúðarhúsnæði. 

Vinnumálastofnun mun frá og með 1. janúar annast afgreiðslu húsnæðisbóta. Allar eldri umsóknir um húsaleigubætur falla þá úr gildi og Garðabær hættir að sjá um afgreiðslu þeirra. Umsækjendum um húsnæðisbætur er bent á að snúa sér til Vinnumálastofnunar. Hægt er að nálgast reiknivél og allar upplýsingar á vefsíðunni www.husbot.is.

Sérstakar húsaleigubætur verða sérstakur húsnæðisstuðningur

Garðabær mun áfram annast afgreiðslu sérstaks húsnæðisstuðnings (áður sérstakar húsaleigubætur) fyrir sína íbúa.

Forsenda fyrir sérstökum húsnæðisstuðningi hjá Garðabæ er að fólk hafi sótt um húsnæðisbætur hjá Vinnumálastofnun og fengið samþykkta umsókn.

Umsóknir um húsnæðisbætur eru á vef Vinnumálastofnunar www.husbot.is

Umsóknir um sérstakan húsnæðisstuðning eru á Mínum Garðabæ.  Fyrirspurnir sendist á netfangið husbot@gardabaer.is

Sækja þarf um fyrir 20 dag fyrsta greiðslumánaðar

Umsókn um sérstakan húsnæðisstuðning skal hafa borist eigi síðar en 20. dag fyrsta greiðslumánaðar. Ef umsókn berst seinna verður ekki greitt vegna þess mánaðar. Sækja þarf um fyrir hvert almanaksár og gildir umsókn til ársloka.

Lög um húsnæðisbætur nr. 75/2016 taka gildi 1. janúar og falla þá úr gildi lög nr. 138/1997 um húsaleigubætur.