15. apr. 2016

Mikill áhugi á samkeppni um aðkomutákn

Um 50 hönnuðir, arkitektar og myndlistarmenn mættu á kynningarfund vegna hugmyndasamkeppni um aðkomutákn í Garðabæ.
  • Séð yfir Garðabæ

Um 50 hönnuðir, arkitektar og myndlistarmenn mættu á kynningarfund vegna hugmyndasamkeppni um aðkomutákn í Garðabæ.

Byrjað var á að fara í rútuferð um Garðabæ þar sem Arinbjörn Vilhjálmsson skipulagsstjóri sagði þátttakendum frá bænum, sögu hans og ýmsum merkum stöðum. Að ferðinni lokinni var haldin móttaka í Hönnunarsafni Íslands við Garðatorg þar sem Gunnar Einarsson bæjarstjóri ávarpaði gestina og sagði frá samkeppninni.

Í ávarpi sínu sagði Gunnar frá tilurð samkeppninnar og sagðist hlakka mikið til að sjá niðurstöður hennar. Til mikils er að vinna því verðlaun fyrir þá tillögu sem valin verður í fyrsta sæti eru 2 milljónir króna. Dómnefnd er þar að auki heimilt að veita sérstakar viðurkenningar.

Samkeppnin er haldin í samvinnu við Hönnunarmiðstöð Íslands og fer fram samkvæmt samkeppnislýsingu og samkeppnisreglum Hönnunarmiðstöðvar (pdf-skjal).

Keppt er um hönnun á nýju aðkomutákni / einkenni til að marka aðkomu að bænum. Aðkomutákninu er ætlað að vekja athygli á Garðabæ og marka það svæði sem honum tilheyrir. Vígsla táknsins verður hluti af hátíðahöldum í tilefni af 40 ára afmæli Garðabæjar.

Ritari keppninnar er Haukur Már Hauksson, en hann er tengiliður við þátttakendur og milli skipuleggjanda keppni og dómnefndar. Fyrirspurnir þurfa að berast fyrir fimmtudaginn 21. apríl 2016 á veffangið: samkeppni@honnunarmidstod.is. Öllum spurningum verður svarað og svörin birt á heimasíðu Hönnunarmiðstöðvar, www.honnunarmidstod.is , fimmtudaginn 28. apríl 2016.

Skilafrestur tillagna er til 23. júní 2016.

Nánari upplýsingar um samkeppnina eru á vef Hönnunarmiðstöðvar.