5. apr. 2016

Fær góð kjör á fjármálamarkaði

Bæjarráð Garðabæjar hefur samþykkt að taka lán upp á 720 milljónir króna til að standa straum af framkvæmdum á árinu
  • Séð yfir Garðabæ

Bæjarráð Garðabæjar hefur samþykkt að taka lán upp á 720 milljónir króna til að standa straum af framkvæmdum á árinu, sem eru áætlaðar fyrir 1.238 milljónir króna. Lánið fæst með 3.15% vöxtum sem eru ágætis kjör enda er fjárhagsstaða bæjarins sterk.

Á meðal helstu framkvæmda ársins er endurnýjun á Sundlaug Garðabæjar í Ásgarði, endurnýjun yfirborðs knattspyrnuvalla, búsetuúrræði fyrir fatlað fólk og ýmsar framkvæmdir við endurnýjn gatna og stíga.

Útboð á skuldabréfum Garðabæjar fór fram 4. apríl 2016 í umsjón fjárfestingarbankasviðs Arion banka. Boðin voru verðtryggð jafngreiðsluskuldabréf til 15 ára í nýjum opnum flokki GARD 16 01 að andvirði allt að 1.000 milljónum króna. Tilboð bárust fyrir samtals 1.820 milljónir króna með ávöxtunarkröfu á bilinu 3,04-3,53%.

Bæjarráð Garðabæjar samþykkti 5. apríl 2016, með fyrirvara um staðfestingu bæjarstjórnar, að taka tilboðum að andvirði 720 milljónum króna á ávöxtunarkröfunni 3,15%. Niðurstaða útboðsins verður lögð fyrir bæjarstjórn 7. apríl 2016.

Fyrirhugað er að skuldabréfin verði tekin til viðskipta á Aðalmarkaði Kauphallar Íslands og verður þá fyrsti viðskiptadagur tilkynntur með að lágmarki eins dags fyrirvara.