Hjólað um borgir og bæi á Ísafold
Ísafold tekur þátt í tveggja mánaða tilraunaverkefni með Motiview, tæknilausn sem hvetur til aukinnar hreyfingar. Motiview virkar þannig að setið er í stól og hjólað á staðnum með þar til gerðu hjóli sem stillt er upp fyrir framan sætið. Á skjá fyrir framan hjólið er um leið spilað myndband af götum borgarinnar eða frá öðrum stað þar sem mynd og hljóð spila saman og sá sem hjólar fær þá tilfinningu að hann hjóli um göturnar.
Ingólfur Páll Steinsson var fyrstur til að prófa Motiview í tilraunaverkefninu á Ísafold, þegar hann hjólaði ,,um miðborg Reykjavíkur". Ingólfur var hæstánægður með lausnina: ,,Þetta er rosalega skemmtilegt, tíminn líður miklu hraðar," sagði hann og nefndi einnig hvað það væri gaman að sjá öll þessi hús sem vektu upp gamlar minningar.
Myndböndin eru tekin upp við íslenskar og erlendar aðstæður þar sem vegfarendur hjóla eftir götum borga og bæja og eru þau hugsuð sem hvatning fyrir notendur á æfingahjólum.
Í verkefninu á Ísafold verður búnaðurinn prófaður og nokkrum einstaklingum fylgt eftir við reglulega notkun þar sem þeir taka próf fyrir og eftir. Markmiðið er að auka hreyfingu og meta hvort mynd og hljóð virki sem hvati til að hreyfa sig meira. Sólveig Þráinsdóttir sjúkraþjálfari og Guðbjörg Björnsdóttir iðjuþjálfi leiða verkefnið á Ísafold.
Búnaðurinn er nú þegar í notkun í Noregi og í Danmörku og er nú fyrst innleiddur á Íslandi. Ísafold, Öldrunarheimili Akureyrar og Droplaugastaðir eru þátttakendur í þessu spennand tilraunaverkefni í samstarfi við Motitech í Noregi.
Sjá á facebook síðu Ísafoldar: https://www.facebook.com/isafoldin/