13. des. 2016

Grænfáninn á Holtakoti

Heilsuleikskólinn Holtakot fékk Grænfánann afhentan í fjórða sinn fyrr í vetur, að þessu sinni fyrir verkefni tengt vatni og orku
  • Séð yfir Garðabæ

Heilsuleikskólinn Holtakot fékk Grænfánann afhentan í fjórða sinn fyrr í vetur, að þessu sinni fyrir verkefni tengt vatni og orku sem unnið hefur verið að á leikskólanum undanfarin tvör ár. Á vef leikskólans er hægt að nálgast skýrslu um verkefnið.

Leikskólinn fékk Grænfánann fyrst afhentan í desember árið 2010, þá fyrir endurvinnslu og flokkun á umbúðum ásamt spörun á pappír og því sem til fellur á leikskólanum. Árið 2012 fékk skólinn annan fána fyrir verkefni um lýðheilsu og árið 2014 þann þriðja fyrir verkefni um átthaga.

Caitlin Wilson, verkefnastjóri Skóla á grænni grein kom í heimsókn á Holtakot 27. október sl. til að athuga hvort leikskólinn uppfyllti þær kröfur sem þarf til þess að fá Grænfánann aftur. Skólinn stóð sig að sjálfsögðu með prýði og fékk í framhaldinu afhenta viðurkenningu og Grænfánaskilti. Hægt er að velja milli þess að fá fána sem dreginn er að húni eða skilti sem hengt er utan á skólann sjálfan og ákvað Ragnhildur Skúladóttir leikskólastjóri að velja skiltið sem verður hengt utan á skólann við fyrsta tækifæri.

Við móttöku skiltisins sungu elstu börnin á Hliði sungu lagið "Á íslensku má alltaf finna svar". Ína Sigrún Þórðardóttir, deildarstjóri á Tröð tók við viðurkenningunni og nokkur börn á Hliði fengu síðan að taka á móti skiltinu sjálfu. Að athöfninni lokinni aðstoðuðu elstu börnin þau yngstu inn á deildina sína Mýri.